Alþingi samþykkti í dag með 50 samhljóða atkvæðum, að veita 24 einstaklingum íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Alls sóttu 42 um það til Alþingis, að fá ríkisborgararétt með þessum hætti.
Meðal þeirra, sem nú fá ríkisborgararétt, er Mehdi Kavyanpoor, 53 ára Írani, sem kom hingað til lands frá Íran árið 2005. Hann sótti um hæli hér á landi í kjölfarið en því höfnuðu bæði dómsmálaráðuneytið og íslenskir dómstólar. Hann sótti síðan um dvalarleyfi af mannúðarástæðum í byrjun ársins í samræmi við nýjar reglur. Í maí kom hann inn á skrifstofur Rauða Krossins í Reykjavík, hellti yfir sig bensíni og hótaði að kveikja í sér. Vildi hann með því mótmæla hve seint gengi að afgreiða umsókn hans.
Mehdi var yfirbugaður og úrskurðaður í heilbrigðisvistun. Hann var ekki ákærður en talið var að hann hefði ekki ætlað að vinna öðrum mein.
Þá fær Siim Vitsut íslenskan ríkisborgararétt en hann er tveggja ára sonur Hannesar Þórs Helgasonar, sem var myrtur á síðasta ári. Siim er fæddur í Eistlandi en fjölskylda hans á Íslandi vissi ekki af honum fyrr en eftir andlát Hannesar. Drengurinn og móðir hans hafa komið hingað til lands nokkrum sinnum að undanförnu.
Helgi Vilhjálmsson, afi drengsins, sagði við mbl.is í vikunni að hann væri mjög þakklátur fyrir að Siim fengi að vera Íslendingur eins og pabbi hans og afi.
Listinn yfir nýju Íslendingana