Mjólkurbíll fór á hliðina

Frá vettvangi í kvöld.
Frá vettvangi í kvöld. mbl.is/Jónas Erlendsson

Ökumaður flutningabifreiðar, sem var að flytja mjólk, slapp með skrámur þegar bíllinn valt á Suðurlandsvegi við Kerlingadalsá um kl. 19:30 í kvöld. Talið er að nokkur þúsund lítrar af mjólk hafi lekið úr mjólkurtanki bílsins.

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var flutningabíllinn, sem ók í vesturátt, með mjólkurtank í eftirdragi. Vagninn fór að rása í hálku með þeim afleiðingum að bílstjórinn missti stjórn á ökutækinu, sem hafnaði á hliðinni utan vegar.

Aðstoð barst fljótt að sögn lögreglu, en annar mjólkurflutningabíll kom rétt á eftir þeim sem hafnaði utan vegar. Bílstjórinn var fluttur á heilsugæslustöðina í Vík til skoðunar, og var hann útskrifaður í kvöld. Segir lögreglan að hann hafi aðeins hlotið skrámur og minniháttar áverka.

Bifreiðin skemmdist við óhappið og er enn utan vegar. Hún verður sótt á morgun að sögn lögreglu.

Mikil hálka er á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert