Mikið spáð í síðustu lúðuna, segir fisksali

Þráinn Sigfússon, starfsmaður í fiskbúðinni Hafrúnu í Reykjavík
Þráinn Sigfússon, starfsmaður í fiskbúðinni Hafrúnu í Reykjavík mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Menn eru mikið að spá í hvort þeir séu að fá síðustu lúðuna,“ sagði Þráinn Sigfússon, starfsmaður í fiskbúðinni Hafrúnu í Reykjavík, í gær. Hann sagði að margir viðskiptavinir hefðu spjallað um bann við lúðuveiðum og spekúlerað í afleiðingum þess. Lúðusala hefur verið talsvert mikil fyrir jólin alla jafna í Hafrúnu, enda lúða hátíðarmatur. Í gær var svolítið til af smálúðu og von á meiri lúðu í búðina. Þráinn sagði vinsælt að borða lúðu um hátíðirnar. Hann sagði að þeir seldu einungis ferskan fisk og ef lúðan fengist ekki fersk yrði hún ekki til í búðinni.

„Umræðan um lúðuna er besta auglýsing sem fiskbúðir hafa fengið frá Jóni Bjarnasyni sjávarútvegsráðherra, því það eru allir að spyrja eftir lúðu. Eftirspurnin hefur aukist alveg gífurlega. Menn eru að taka lúðu í paté og til að eiga milli jóla og nýárs,“ sagði Kári Þór Jóhannsson, fisksali á Ísafirði, í framhjáhlaupi þegar rætt var við hann í fyrradag um kæsta skötu.

Lúða verður fágætari í fiskbúðum á næsta ári en hingað til vegna banns við lúðuveiðum frá næstu áramótum. Þá verða sjómenn skyldaðir til að sleppa aftur í sjóinn lífvænlegri lúðu sem veiðist. Sú lúða sem berst að landi á næsta ári verður seld en andvirðið mun renna til rannsókna.

Ragnar H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja, sagði að í fyrra hefðu borist 169 tonn af lúðu á fiskmarkaði landsins og meðalverðið verið 1.004 krónur kílóið. Hann sagði að þeir hefðu ekki orðið varir við aukna spurn eftir lúðu eftir boðað bann við veiðum. Heildarlúðuaflinn í fyrra var líklega upp undir 500 tonn en lúða veidd á haukalóð fór mest beint í útflutning.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert