Landsliðskona slasaðist

Fanney Guðmundsdóttir.
Fanney Guðmundsdóttir. mbl.is/Guðmundur Jakobsson

Fanney Torbjörg Guðmundsdóttir, landsliðskona á skíðum, slasaðist alvarlega á aðfangadag þar sem hún var að æfa sig í Geilo í Noregi. Hún er nú á Ullevål-sjúkrahúsinu í Ósló þar sem hún gengst undir aðgerð í fyrramálið.

Fanney var á skíðum í Geilo í Noregi á aðfangadagsmorgun þegar hún datt á miklum hraða og þeyttist út úr bakkanum. Hún lenti á tré með þeim afleiðingum að fjölmörg bein í líkama hennar brotnuðu, að sögn föður hennar.

Fanney var meðvitundarlaus þegar að henni var komið og andaði ekki. Með skjótum og réttum viðbrögðum þeirra sem að komu náðist að koma lífi í stúlkuna. Hún var algjörlega lömuð fyrir neðan háls fyrst í stað vegna áverka á mænustofni.

Flogið var með hana til Ullevål-sjúkrahússins í Ósló þar sem hún gengst undir flókna aðgerð á hálsi, tveimur efstu hryggjarliðum, í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert