Stjórnir svæðisfélaga Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs í Húnavatnssýslu og Skagafirði hafa samþykkt ályktun þar sem mótmælt er harðlega aðför Samfylkingarinnar að samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn.
Jafnframt segjast stjórnir félaganna harma valdníðslu formanns VG, Steingríms J. Sigfússonar, vegna áforma um að leggja niður ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar vegna eindreginnar andstöðu ráðherra við aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
Stjórnir VG í Húnavatnssýslu og Skagafirði segjast telja einsýnt að boðaðar breytingar á stjórnarráði Íslands séu beinlínis gerðar til að veikja stöðu íslenskra hagsmuna gagnvart Evrópusambandinu í yfirstandandi aðlögunarviðræðum.
Skora stjórnirnar á þingflokk og stjórn VG að hafa stefnuskrá flokksins og fyrirheit hans í kosningum í fyrirrúmi í störfum sínum.