Fréttaskýring: Umbrot í Samfylkingunni

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingar og Dagur B. Eggertsson, …
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingar og Dagur B. Eggertsson, varaformaður flokksins, á flokksstjórnarfundi í vor. Kristinn Ingvarsson

Það er nokkrum vikum fyrir þriggja ára afmæli minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem framsókn varði falli, sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra kallar eftir uppstokkun í forystu Samfylkingarinnar. Og ekki nóg með það, ráðherrann kallar eftir nýrri hugmyndafræði.

Það var í viðtali við áramótablað Viðskiptablaðsins sem Össur lýsti yfir þessari skoðun sinni.

Var Össur spurður hvort ekki væri kominn tími á endurnýjun hjá Samfylkingunni, m.a. í ljósi þess að aðeins væri tímaspursmál hvenær Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar stigi til hliðar.

Lýsti Össur þá yfir þeirri skoðun sinni að við endurnýjun forystunnar „eigi að fara niður um tvær kynslóðir og tefla fram ungum en reyndum leiðtoga“. Nefndi Össur svo Árna Pál Árnason, Björgvin G. Sigurðsson, Dag B. Eggertsson, Helga Hjörvar, Katrínu Júlíusdóttur, Magnús Orra Schram, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Skúla Helgason sem möguleg formannsefni.

Millikynslóðin úr leik?

Vegna þessarar yfirlýsingar er athyglisvert að rifja upp viðtal fréttavefjar Morgunblaðsins við Össur 27. febrúar 2009, nokkrum vikum eftir að minnihlutastjórnin tók við völdum og skömmu áður en efnt var til kosninga í apríl sama ár.

Kvaðst Össur þá ekki sækjast eftir því að verða formaður Samfylkingarnnar gengi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir frá borði, sem og raunin varð. Þá kvaðst hann vel geta hugsa sér að styðja Jóhönnu Sigurðardóttir í það embætti, færi svo að hún gefi kost á sér og Ingibjörg Sólrún drægi sig í hlé. Nýjar kynslóðir væru þó einnig í spilunum.

„Samfylkingin er stór flokkur og hún hefur náð því að hún framleiðir leiðtogaefnin nánast á færibændi. Það eru margir sem að þar væru kallaðir,“ sagði Össur þá.

Með yfirlýsingunni nú hefur Össur skipt um skoðun enda er kynslóðin á undan Jóhönnu, að honum sjálfum, Guðbjarti Hannessyni og Lúðvíki Geirssyni meðtöldum, ekki lengur inni í myndinni.

Endurskoði stefnuna

Össur lætur ekki þar við staðar numið heldur telur það munu verða hlutverk nýrrar kynslóðar að „leiða endurnýjun hugmyndastefnunnar innan flokksins“.

Í því samhengi er ekki úr vegi að rifja upp ávarp Jóhönnu Sigurðardóttur á fundi Samfylkingarinnar á flokksstjórnarfundi 29. maí sl

Rakti Jóhanna þar hvernig nokkur lykilmál í stefnu flokksins væru svo brýn að Samfylkingin væri tilbúin að opna dyrnar fyrir stuðningsmönnum „aukins jöfnuðar, aukins lýðræðis, aukins arðs þjóðarinnar af auðlindum landsins og öflugara velferðarkerfis“, jafnvel undir nýjum formerkjum.

„Breytt skipulag, nýtt nafn, ný forysta eða annað á ekki að standa í vegi fyrir því að þessi mikilvægu málefni fái kröftugan framgang og jafnaðarmenn í öllum flokkum geti sameinast á öflugum flokksvettvangi. Í þessum efnum má ekki standa á okkur í Samfylkingunni,“ sagði Jóhanna í ávarpi sínu.

Þrjár kynslóðir

Fróðlegt er að bera saman aldur þeirra átta þingmanna sem Össur nefndi sem möguleg formannsefni og aldur Össurar, Guðbjarts og Lúðvíks. Árni Páll er 45 ára, Björgvin G. 41 árs, Dagur B. 39 ára, Helgi 44 ára, Katrín 37 ára, Magnús Orri 39 ára, Sigríður Ingibjörg 43 ára og Skúli er 46 ára. Aldursbilið er samsagt frá 37 til 46 ára.

Mætti því strangt til tekið skipta þessari kynslóð upp í tvær.

Össur er hins vegar 58 ára, Guðbjartur 61 árs en Lúðvík er 52 ára.

Jóhanna Sigurðardóttir er talsvert eldri eða 69 ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka