ESB-flokkur færist nær framboði

Við höfuðstöðvar ESB í Brussel. Aðstandendur Lýðfrelsisflokksins eru eindregnir fylgismenn …
Við höfuðstöðvar ESB í Brussel. Aðstandendur Lýðfrelsisflokksins eru eindregnir fylgismenn aðildar að ESB. Reuters

Undirbúningur að framboði Lýðfrelsisflokksins gengur vel, að sögn Friðriks Hansen, eins hvatamanna flokksins, og er horft til næstu þingkosninga í því efni. Friðrik er vongóður um góða kosningu, fari svo að flokkurinn bjóði fram. Aðild að ESB er eitt lykilmála flokksins.

„Við höfum unnið að undirbúningnum í tvö ár og höldum meðal annars úti heimasíðu á netinu. Stefnan hefur verið sett á framboð í næstu þingkosningum. Við staðsetjum okkur hægra megin við miðju ... og sjáum fyrir okkur að Ísland gangi í Evrópusambandið. Afstaða okkar til aðildar er óbreytt,“ segir Friðrik og vísar til vandans á evrusvæðinu. Horft sé til næstu áratuga í þessu efni.

ESB-flokkur fyrir hægrimenn

Friðrik segir hægrimenn skorta valkost í Evrópumálum.

„Við höfum engan valkost í dag með hinni hörðu andstöðu Sjálfstæðisflokksins gegn Evrópusamstarfi og enga lausn í gjaldeyrismálum heldur.“

Hann skynjar góðan stuðning meðal kjósenda.

„Undirbúningurinn heldur áfram. Við ætlum að sjá hvernig gengur að raða fólki upp á lista og í haust verður tekin ákvörðun um framhaldið í ljósi þess hvernig sú uppstilling gengur.

Ég er vongóður um góðan árangur. Við höfum fengið góðar undirtektir. Við höfum gefið okkur góðan tíma í þennan undirbúning og eru komnir með nokkuð góða stefnuskrá. Hún mun endurspegla stefnuskrá borgaraflokkanna í Evrópu og þá sérstaklega í Þýskalandi og á Norðurlöndum. Það má líta á það sem svar við hinni miklu hægristefnu Sjálfstæðisflokksins sem endurspeglar að okkar mati hægriflokka Bandaríkjanna og Bretlands,“ segir Friðrik Hansen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert