Undirbúningi lýkur bráðlega

Friðrik Þór Guðmundsson
Friðrik Þór Guðmundsson

Friðrik Þór Guðmundsson, formaður Borgarahreyfingarinnar, staðfestir að fulltrúar og einstaklingar úr röðum Borgarahreyfingarinnar, Hreyfingarinnar, Frjálslyndra, fullveldissinna og fleiri hafi rætt um um breiðfylkingarframboð í næstu þingkosningum. Undirbúningsvinnu ljúki bráðlega.

Í grein á Eyjunni segir hann að þessar viðræður hafi verið í gangi frá því í nóvember. Ýmsir hafi komið að þessum viðræðum, m.a. nokkrir stjórnlagaráðsmenn. Nú fari undirbúningsstigi senn að ljúka og málefnahópar séu að ganga frá stefnuramma og tillögum um skipulag/form hins nýja afls.

Ný stjórnarskrá í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs

Friðrik segir að samstaða um lykilbaráttumál hafi verið eindregin. „Höfuðáherslurnar eru á nýja stjórnarskrá í samræmi við frumvarp stjórnlagaráðs, alvöruskjaldborg um heimilin, uppstokkun kvótakerfisins og siðvæðingu stjórnsýslunnar og fjármálamarkaðarins. Það er og gengið út frá því að samningsviðræðum við ESB ljúki og niðurstaðan verði borin undir þjóðina. Reikna má með því að undirbúningsvinnunni ljúki bráðlega og þá verður „allt galopnað“ og öll pólitísk öfl og einstaklingar boðnir velkomnir í breiðfylkinguna utan um téðan stefnu-kjarna og til aðkomu að nánari útfærslu hans,“ segir Friðrik.

Fennir yfir deilur Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar

Hann lýkur grein sinni með því að segja að samstarfið þurfi ekki að koma á óvart. „Síðustu mánuði hefur samstarf Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar aukist og hratt fennt yfir „fornar“ deilur. Fyrri klofningur er engin fyrirstaða lengur og fólk einhuga um að láta málefnin ráða för.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert