Vilja reisa virkjun við Hagavatn

Gervihnattaljósmynd af Íslandi sem geimferðastofun Bandaríkjanna (NASA) tók í september …
Gervihnattaljósmynd af Íslandi sem geimferðastofun Bandaríkjanna (NASA) tók í september sl. Á henni sést glögglega mikið sandfok sunnan Langjökuls við Hagavatn.

Íslensk vatns­orka hef­ur stofnað fé­lagið Haga­vatns­virkj­un ehf. en til­gang­ur fé­lags­ins, sem var stofnað í des­em­ber, er m.a. að reisa og eiga virkj­un við Haga­vatn sunn­an Lang­jök­uls. Stjórn­ar­formaður Haga­vatns­virkj­un­ar er Eyþór Arn­alds.

„Þetta byrj­ar í raun og veru sem upp­græðslu­verk­efni, þ.e.a.s að end­ur­heimta Haga­vatn. Áður en menn komu auga á að það væri hægt að nýta þetta til raf­orku­fram­leiðslu þá voru menn að græða þarna upp sanda og leir­ur, sem eru mjög þurr­ar,“ seg­ir Eyþór í sam­tali við mbl.is.

Aðspurður seg­ir Eyþór að um hreina rennslis­virkj­un sé að ræða, sem gæti fram­leitt um 20 mega­vött. Raf­magnið yrði lík­lega selt inn á raf­orku­kerfið eða til stór­not­enda. Eyþór tek­ur hins veg­ar fram að eng­in end­an­leg niðurstaða liggi fyr­ir í þeim efn­um. Þá seg­ir hann að það sé ekki búið að ákveða end­an­lega stærð á virkj­un­inni. Verk­efnið sé hins veg­ar ekki það stórt í sniðum að það kalli á stór­ar fram­kvæmd­ir. 

Haga­vatn renn­ur í Farið sem renn­ur í Sand­vatn, og seg­ir Eyþór að menn séu að horfa á að nýta fallið um Farið. „Það er ekki verið að fara í jöfn­un­ar­lón eða neitt slíkt, held­ur ein­fald­lega að end­ur­heimta vatnið sem var þarna áður.“

Minna sand­fok

Í um­sögn land­eig­enda í Úthlíðartorfu í Bisk­upstung­um, sem nú er inn­an sveit­ar­fé­lags­ins Blá­skóga­byggðar, kem­ur fram að það hafi verið hags­muna­mál land­eig­enda til margra ára að end­ur­heimta fyrri há­marks­stærð Haga­vatns með stíflu­gerð til að hefta sand­fok og end­ur­heimta gróðurþekju á nær­liggj­andi svæðum.

Í minn­is­blaði um Haga­vatns­virkj­un, frá 29. nóv­em­ber sl., seg­ir að um­hverf­isáhrif virkj­un­ar við Haga­vatn mót­ist af því að stífla skarð sem myndaðist í jök­ulg­arðinn fyr­ir um 80 árum. Þannig myndi uppistöðulón mynd­ast sem yrði á sama stað og stöðuvatn sem hefði verið þar áður frá nátt­úr­unn­ar hendi. Fyrri stærð Haga­vatns yrði því end­ur­heimt með fram­kvæmd­inni. Þá sýni áætlan­ir að sand­fok af svæðinu myndi minnka veru­lega.

Þá kem­ur fram í minn­is­blaðinu að Íslensk vatns­orka hafi samið um vilja­yf­ir­lýs­ingu við stóriðju­fyr­ir­tæki um orku­sölu frá Haga­vatns­virkj­un. Fjár­mögn­um beggja verk­efna hafi verið und­ir­bú­in og heild­ar­fram­lag fram­kvæmd­anna sé af stærðargráðunni 15 millj­arðar króna sem muni skapa störf fyr­ir um 600 manns á fram­kvæmda­tíma.

Á hönn­un­arstigi

Eyþór seg­ir að land­eig­end­ur, Blá­skóga­byggð og Land­græðsla rík­is­ins hafi sýnt verk­efn­inu mik­inn áhuga og að um­sagn­ir hafi verið afar já­kvæðar.

Árið 2007 fékk Orku­veita Reykja­vík­ur út­hlutað rann­sókn­ar­leyfi til at­hug­ana á virkj­un­ar­val­kosti við Haga­vatn en það verk­efni stöðvaðist að sögn Eyþórs „Þá var farið í það, í sam­vinnu við land­eig­end­ur, að setja þetta fé­lag á stofn.“ Það muni halda áfram með verk­efnið.

„Þetta er í raun og veru á hönn­un­arstigi. Það er ekki komið neitt virkj­un­ar­leyfi eða neitt slíkt. Menn eru að þróa hug­mynd­ina áfram og sjá að hún er í mik­illi sátt við sitt nán­asta um­hverfi,“ seg­ir Eyþór og bæt­ir við að und­ir­bún­ings­vinn­an sé unn­in í góðu sam­starfi við heima­menn.

Meðstjórn­end­ur í Haga­vatns­virkj­un ehf. eru þeir Hörður Jóns­son og Ei­rík­ur Braga­son, sem er jafn­framt fram­kvæmda­stjóri.

Sandvatn var stækkað til að hefta fok, eins og ráðgert …
Sand­vatn var stækkað til að hefta fok, eins og ráðgert er um Haga­vatn. mbl.is/​RAX
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka