X-G leitar frambjóðenda

Haust og litadýrð á Þingvöllum. Náttúruvernd er í fyrirrúmi í …
Haust og litadýrð á Þingvöllum. Náttúruvernd er í fyrirrúmi í stefnuskrá Hægri grænna. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hægri-grænir hyggjast ýta kosningabaráttu sinni úr vör þegar nákvæmlega ár verður til þingkosninga 2013 og er á þessu stigi horft til 21. apríl nk. í þessu efni. Flokkurinn stefnir á að nota listabókstafinn G en bókstafinn A til vara. Boðið verður fram í öllum kjördæmum.

Guðmundur Franklín Jónsson athafnamaður segir mikinn hug í félagsmönnum en eins og fram kemur í niðurlagi fréttarinnar er áhugaverðra frambjóðenda nú leitað.

„Eru orðnir að stórri fjöldahreyfingu“

„Við komum til með að bjóða fram í öllum sex kjördæmum. Hægri-grænir eru orðnir að stórri fjöldahreyfingu. Tilkynnt verður formlega um framboðið með tilheyrandi mörgum undirskriftum þegar nákvæmlega ár er til kosninga. Við erum búnir að tryggja okkur lénið X-G fyrir grænt og ætlum að sækja um þann listabókstaf hjá dómsmálaráðuneytinu. Til vara sækjum við um bókstafinn A. Við eigum bæði lénin, xg.is og xa.is,“ segir Guðmundur Franklín.

„Haldinn verður blaðamannafundur þegar ár er til kosninga. Við teljum að kosningar verði líklegast 21. apríl 2013 og horfum því til 21. apríl nk. Þá verður stefna flokksins kynnt í 45 liðum og í framhaldinu verður mánaðarlega birt stefna í málum sem efst eru á baugi hverju sinni,“ segir Guðmundur Franklín og nefnir lífeyrissjóðs-, sjávarútvegs- og bankamál sem dæmi um líklega málaflokka í stefnumótuninni.

Tuttugu manns komið að undirbúningnum

- Hvernig hefur undirbúningi verið háttað?

„Tuttugu manns hafa unnið að undirbúningnum sleitulaust í eitt ár.“

- Hvað finnst þér um frammistöðu ríkisstjórnarinnar?

„Hún er skelfileg. Það var svo sem ekki við öðru að búast. Það sýnir sig í öllum skoðanakönnunum að almenningur treystir ekki Alþingi. Stjórnarandstaðan nýtur heldur ekki trausts. Ég held að það sé kominn tími til að gefa fjórflokknum frí.“

Afþakka „pólitíska lukkuriddara“ 

Guðmundur Franklín heldur áfram:

„Við komum til með að auglýsa eftir áhugaverðum einstaklingum sem hafa áhuga á að bjóða sig fram fyrir fólkið um allt land. Við munum hreinlega auglýsa í Morgunblaðinu eftir fólki. Pólitískir aðilar, alþingismenn og menn sem hafa verið í pólitík, eru afþakkaðir sem og lukkuriddarar á síðasta söludegi,“ segir Guðmundur Franklín og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert