„Málinu er lokið í New York. En því er samt ekki lokið,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, um skaðabótamál slitastjórnarinnar gegn gegn sex fyrrverandi eigendum og stjórnendum bankans. Málinu verður fylgt eftir fyrir íslenskum dómstólum.
Steinunn segir að málið sé í vinnslu og það verði höfðað á Íslandi á næstu vikum. „Málið verður allt öðruvísi lagt upp fyrir íslenskum dómstólum,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Hún segir að það hafi legið fyrir í desember sl. að fylgja ekki eftir áfrýjun slitastjórnarinnar frá því í vor fyrir dómstólum í New York „Ástæðan fyrir því að við settum inn þessa tilkynningu um áfrýjun var sú að það gaf okkur tækifæri til þess að skoða málið og ræða við okkar ráðgjafa.“
Niðurstaðan hafi verið sú að fylgja málinu eftir fyrir íslenskum dómstólum. „Okkar ráðgjafar hafa farið yfir þetta - ráðgjafar sem hafa mikla reynslu af svona málum - og þeir telja að hlutir hafi farið úrskeiðis þannig að það sé grundvöllur fyrir kröfum af ýmsum toga,“ segir Steinunn.
Hún bendir á að fyrrverandi eigendur og stjórnendur Glitnis hafi viðurkennt lögsögu íslenskra dómstóla. „Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að þau skilyrði voru sett [sem dómari í New York setti í málinu] og þeir [sexmenningarnir] skyldu gangast undir íslenska dómstóla. Vegna þess að það gerir það verkum að við getum að minnsta kosti stefnt þeim.“
„Það er alls ekki víst að það verði sami hópurinn undir. Það gætu verið fleiri og það gætu verið færri. Og það gætu verið fleiri mál og þess háttar,“ bætir Steinunn við.
Ríkisútvarpið skýrir frá því að þeir Pálmi Haraldsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason muni skila búskröfu í þrotabúið á næstu dögum. Þá íhugi þeir að fara fram á miskabætur.
„Niðurstaða dómstólsins í Bandaríkjunum varð sú að hvor aðili bæri sinn kostnað af málinu,“ segir Steinunn spurð út í kröfur þremenninganna.
„Við erum að halda áfram okkar vinnu varðandi skoðun á því sem fór úrskeiðis hjá Glitni,“ segir Steinunn. Sú vinna gangi vel og sé mjög langt komin. Að öðru leyti getur hún ekki tjáð sig nánar um þá vinnu.