Greiningardeild ríkislögreglustjóra segir, að skotárás í Bryggjuhverfi í Reykjavík í nóvember á síðasta ári og þaulskipulagt rán erlendra glæpamanna í úraverslun á Laugavegi í októbermánuði séu til marks um þann „nýja veruleika“ á sviði skipulagðrar brotastarfsemi sem blasi við hér á landi.
„Ránið á Laugavegi frömdu menn sem komu til landsins gagngert í þeim tilgangi. Ætlunin var að flytja þýfið úr landi og vitað er að slíkur „útflutningur“ hefur farið fram
á undanliðnum árum. Atburðir þessir vísa í senn til aukinnar hörku í íslenskum undirheimum og umsvifa erlendra glæpahópa hér á landi. Greina hefur mátt þessa þróun hin síðustu ár og tæpast er ástæða til að ætla að henni verði snúið við þrátt fyrir snörp og fagmannleg viðbrögð lögreglu,“ segir í nýrri skýrslu um hættumat greiningardeildar embættisins.
Í skýrslunni segir að ljóst sé að lögregla standi frammi fyrir verkefnum sem geri sífellt
meiri kröfur til starfsmanna m.a. vegna alþjóðlegra tenginga glæpahópa sem láti til sín taka hér á landi og aukinnar hættu á vopnaburði afbrotamanna og ofbeldisverkum.
„Greiningardeild hefur áður varað við hættu á aukinni samvinnu glæpahópa á Íslandi, ekki síst þeirra sem teljast innlendir þar sem uppruni þeirra er hér á landi og þá skipa einkum íslenskir ríkisborgarar og hinna sem erlendir teljast. Ástæða er til að vekja athygli á vöruskiptum glæpahópa auk þess sem vísbendingar eru um að í vöxt færist að glæpahópar nýti rán og innbrot til að afla verðmæta í því skyni að fjármagna annars konar starfsemi, t.a.m. fíkniefnaviðskipti,“ segir í skýrslunni.