Fréttaskýring: Framkvæmdin háð mikilli óvissu og áhættu

Fundur í umhverfis- og samgöngunefnd í morgun.
Fundur í umhverfis- og samgöngunefnd í morgun. mbl.is/Sigurgeir

Gerð Vaðlaheiðarganga er háð bæði mikilli óvissu og áhættu, að því er fram kom á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun.

Fyrir fundinn voru kallaðir þrír aðilar sem unnið hafa skýrslur um göngin og gerðu grein fyrir þeim og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Um var að ræða fulltrúa IFS Ráðgjafar sem nýverið vann skýrslu um málið fyrir fjármálaráðuneytið, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem vann skýrslu fyrir samgönguráðuneytið sumarið 2010 þar sem fjallað er um Vaðlaheiðargöng og Pálma Kristinsson verkfræðing sem nýverið vann skýrslu á eigin vegum.

Forsaga málsins er sú að Vaðlaheiðargöng voru á sínum tíma tekin út úr samgönguáætlun og ákveðið að setja þau í einkaframkvæmd til þess að flýta fyrir því að þau gætu orðið að veruleika sem þýðir auka kröfu um að framkvæmdin standi undir sér. Meðal annars var rætt við lífeyrissjóðina um að koma að fjármögnun þeirra en ekki varð af því.

Eins og staða málsins er í dag er gert ráð fyrir að ríkið leggi fram fjármagn til framkvæmdarinnar sem það þarf að fá lánað annars staðar frá. Það fjármagn verði síðan greitt til baka eftir að göngin verða komin í notkun á þeim hraða sem aðstæður leyfa, þ.e. hverju þau skila í tekjum.

Enginn annar lánveitandi

Skýrsluhöfundar voru meðal annars inntir svara við því af Birgi Ármannssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, hvers vegna ríkið þyrfti að koma að málinu með þessum hætti ef talið væri að framkvæmdin ætti að geta staðið undir sér eins og meðal annars er niðurstaða IFS Ráðgjafar.

Fulltrúar IFS Ráðgjafar svöruðu því til að það væri fyrst og fremst pólitísk spurning sem fyrirtækið hefði ekki verið beðið að svara í skýrslu sinni. Pálmi Kristinsson sagði á hinn bóginn að svarið við spurningunni væri mjög einfalt. Það hefði einfaldlega ekki fengist annar lánveitandi til þessarar framkvæmdar en ríkið vegna áhættunnar af því.

Þá var talsvert rætt um eðli þess láns sem ríkið hygðist veita vegna framkvæmdarinnar sem Pálmi Kristinsson sagði vera blöndu af kúluláni og hefðbundnu láni þar sem greitt væri inn á það einfaldlega þegar peningar væru til. Fram kom að slík lán væru mjög óhefðbundin og helst tengd miklum áhættufjárfestingum.

Óvissa um vaxtaþróun

Rætt var ennfremur um þau lánakjör sem ættu að vera á slíkri fyrirgreiðslu ríkisins en gert er ráð fyrir að hún beri 3,7% ríkistryggða vexti. Nefndarmenn, þar á meðal Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður nefndarinnar, og Atli Gíslason, spurðu hvort ekki væri líklegt að ríkið yrði að greiða mun hærri vexti fyrir það lán sem það tæki til þess að fjármagna þessa fyrirgreiðslu vegna Vaðlaheiðarganga og bent á í því sambandi meðal annars að lífeyrissjóðirnir yrði að lána talsvert yfir 3,5% og vextir í sögulegu ljósi hefðu verið yfir 5%. Var þessu ekki mótmælt.

Fulltrúar IFS Ráðgjafar þurftu að hverfa af fundinum klukkan 10:30 til þess að mæta á fund fjárlaganefndar Alþingis og spurðu þá nefndarmenn fulltrúar Hagfræðistofnunar og Pálma Kristinsson hvort þeir hefðu ekki verið beðnir að koma á fund fjárlaganefndar líka en því var svarað neitandi. Þótti nefndarmönnum mörgum það augljóslega athyglisvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert