NO komið til landsins

Skúlptúr spænska listamannsins Santiago Sierra er kominn til landsins og ferðast nú á milli staða sem listamaðurinn segir að tengist með einum eða öðrum hætti íslenska efnahagshruninu. Fyrstu viðkomustaðirnir voru Alþingishúsið og höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti.

Verkið er þriggja metra hátt, fjögurra metra breitt og vegur eitt og hálft tonn að þyngd en verkið hóf för sína árið 2009 og hefur vakið mikla athygli.

Formleg opnun verður svo á föstudag en dagsetningin, 20. janúar, er ekki tilviljun háð. Sierra vill með henni minnast þess að þennan sama dag fyrir þremur árum voru söguleg mótmæli haldin á Austurvelli, þegar þúsundir manna söfnuðust saman í tilefni af setningu Alþingis. Þá um kvöldið var varðeldur kveiktur á stéttinni fyrir framan viðbyggingu Alþingishússins og seinna um kvöldið var jólatré borgarinnar dregið á köstinn.

Sýningin markar tímamót á ferli Santiagos en þar verður í fyrsta sinn á heimsvísu sýnt heildarsafn allra heimildarkvikmynda og -myndbanda listamannsins, samtals 51 talsins, en margar þeirra eru afar umdeildar og þykja ekki við hæfi barna undir átján ára aldri. Myndefnið er í heild tæpar fimmtíu klukkustundir og verkin allt frá mínútu upp í tvær klukkustundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert