Fréttaskýring: Vélhjólasamtökin áberandi

Lögreglan hefur eftir fremsta mætti reynt að sporna við uppgangi …
Lögreglan hefur eftir fremsta mætti reynt að sporna við uppgangi vélhjólasamtaka hér á landi. mbl.is/Júlíus

„Full ástæða er til að ótt­ast að enn auk­in harka, þar með tal­inn vopna­b­urður, verði viðtek­in í ís­lensk­um und­ir­heim­um.“ Þetta seg­ir í fyrstu skýrslu grein­ing­ar­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra sem gef­in var út í júní 2008. Einnig er komið inn á tengsl ís­lenskra vél­hjóla­sam­taka við Vít­isengla og að með þeim hafi verið stofnað til form­legra tengsla við skipu­lögð, alþjóðleg glæpa­sam­tök. Í síðari skýrsl­um er áfram varað við þess­ari þróun og á það bent, að „alls staðar þar sem Hells Ang­els hafa náð að skjóta rót­um hef­ur auk­in skipu­lögð glæp­a­starf­semi fylgt í kjöl­farið“.

Óvar­legt væri að slá því föstu að koma Vít­isengla til lands­ins hafi orðið til þess að skipu­lögð glæp­a­starf­semi fær­ist í vöxt. Þó virðist sem flest það sem grein­ing­ar­deild­in bend­ir á hafi ræst. Ekki síst þetta með hörk­una sem virðist hafa ágerst. Ekki þarf annað en að líta til nýliðins árs og svo fyrstu daga þessa árs.

Frels­is­svipt­ing og skotárás

Vél­hjóla­sam­tök voru áber­andi í fyrra. Í októ­ber dæmdi Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur tvo menn í þriggja og hálfs árs og þriggja ára fang­elsi fyr­ir frels­is­svipt­ingu og stór­fellda lík­ams­árás. Menn­irn­ir voru kennd­ir við vél­hjóla­sam­tök­in Black Pist­ons – ann­ar þeirra for­seti sam­tak­anna – sem hefðu tengsl við vél­hjóla­sam­tök­in Outlaws í Nor­egi, og væru svo­nefnd­ur stuðnings­klúbb­ur. Verj­andi ann­ars mann­anna hafnaði þessu raun­ar al­farið, benti á að um­rædd­ir menn ættu ekki einu sinni bif­hjól og varpaði fram þeirri spurn­ingu hvernig um vél­hjóla­sam­tök gæti þá verið að ræða.

Sam­tök­in komust aft­ur í fjöl­miðla ein­um mánuði síðar. Þá var reynd­ar upp­lýst að Black Pist­ons væru ekki til leng­ur því sam­tök­in hefðu fengið fulla aðild að Outlaws og bæru því það nafn. Þeim áfanga virðist hafa verið fagnað með skotárás í Bryggju­hverf­inu því lög­regla hand­tók nokkra ein­stak­linga tengda Outlaws í fram­haldi af henni. Þeir sitja enn í gæslu­v­arðhaldi. Að mati lög­reglu var um að ræða af­brot sem framið hafði verið með skipu­lögðum og verk­skipt­um hætti af hópi manna sem kenn­ir sig við glæpa­sam­tök.

Lög­regla fór í nokkr­ar hús­leit­ir í tengsl­um við málið og fann í einni þeirra mesta magn vopna sem fund­ist hef­ur í einni hús­leit.

Vít­isengl­ar einnig hand­tekn­ir

Að end­ingu má nefna hand­tök­ur lög­regl­unn­ar í síðustu viku, en þá voru hneppt­ir í gæslu­v­arðhald fimm ein­stak­ling­ar sem lög­regla seg­ir tengj­ast Vít­isengl­um. Komið hef­ur fram í fjöl­miðlum að hand­tök­urn­ar teng­ist tveim­ur árás­um á konu en eft­ir þá fyrri var hún flutt meðvit­und­ar­laus á sjúkra­hús. Þá var tvennt hand­tekið en það hafði ekk­ert að segja, aft­ur var gengið í skrokk á kon­unni.

Meðal þeirra sem voru hand­tekn­ir var for­seti Vít­isengla á Íslandi og sagði Rík­is­út­varpið lög­reglu telja að hann hafi fyr­ir­skipað árás­irn­ar. Ástæðan var sögð vera hefnd.

Verður ekki aft­ur snúið

Grein­ing­ar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra vís­ar til þess í ný­legri skýrslu sinni að at­b­urðir sem komu upp í fyrra séu til marks um aukna hörku í ís­lensk­um und­ir­heim­um. „Greina hef­ur mátt þessa þróun hin síðustu ár og tæp­ast er ástæða til að ætla að henni verði snúið við þrátt fyr­ir snörp og fag­mann­leg viðbrögð lög­reglu í þeim mál­um sem hér hef­ur verið vikið að.“

Árás­in í Bryggju­hverf­inu þykir sér­stak­lega til marks um þá hættu að til átaka komi með ein­stak­ling­um og hóp­um sem tengj­ast skipu­lagðri brot­a­starf­semi á Íslandi. Ástæða sé til að ætla að hömlu­leysi fari vax­andi en sam­hliða því eru vís­bend­ing­ar um að fé­lag­ar í glæpa­hóp­um gangi oft­ar um vopnaðir og hafi lagt áherslu á að kom­ast yfir vopn.

Við þessu var varað í fyrstu skýrslu grein­ing­ar­deild­ar­inn­ar en nú, fjór­um árum síðar, telst hætta á átök­um hópa sem tengj­ast skipu­lagðri glæp­a­starf­semi viðvar­andi, ekki síst vopnuðum átök­um.

Átak sem gefst vel

Vís­bend­ing­ar um al­var­lega skipu­lagða glæp­a­starf­semi hér á landi og að slík starf­semi væri að fær­ast í vöxt varð til þess að rík­is­stjórn­in samþykkti í mars á síðasta ári að veita 47 millj­ón­ir króna í tólf mánaða átak lög­regl­unn­ar til að vinna gegn skipu­lagðri brot­a­starf­semi.
Stefán Ei­ríks­son, lög­reglu­stjóri höfuðborg­ar­svæðis­ins, seg­ir um reynsl­una af átak­inu að það sé mat sitt að „áhersl­ur lög­regl­unn­ar á aðgerðir gegn skipu­lagðri brot­a­starf­semi skipti mjög miklu máli og góður ár­ang­ur hafi orðið af því starfi að und­an­förnu“.
Meta átti reynsl­una af átak­inu um þetta leyti og taka ákvörðun um það hvort haldið yrði áfram á sömu braut. Fyr­ir­spurn til inn­an­rík­is­ráðherra um fram­haldið var þó ekki svarað í gær­dag.
En þetta er ekki það eina sem gert hef­ur verið til að sporna við skipu­lagðri glæp­a­starf­semi. Meðal ann­ars má nefna að stefnt er að því að styrkja rann­sókn­ar­heim­ild­ir lög­reglu þegar kem­ur að starf­semi skipu­lagðra glæpa­sam­taka. Með því er heim­ild lög­regl­unn­ar styrkt til að hefja rann­sókn á máli þegar grun­ur leik­ur á að verið sé að und­ir­búa brot.
Þá verður lagt fram nýtt frum­varp um vopna­lög­gjöf­ina þar sem brugðist er við aukn­um vopna­b­urði. Til dæm­is verða heim­ild­ir lög­reglu til að leggja hald á skot­vopn aukn­ar auk annarra breyt­inga til að auka ör­yggi sam­fé­lags­ins.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert