Fréttaskýring: Vélhjólasamtökin áberandi

Lögreglan hefur eftir fremsta mætti reynt að sporna við uppgangi …
Lögreglan hefur eftir fremsta mætti reynt að sporna við uppgangi vélhjólasamtaka hér á landi. mbl.is/Júlíus

„Full ástæða er til að óttast að enn aukin harka, þar með talinn vopnaburður, verði viðtekin í íslenskum undirheimum.“ Þetta segir í fyrstu skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem gefin var út í júní 2008. Einnig er komið inn á tengsl íslenskra vélhjólasamtaka við Vítisengla og að með þeim hafi verið stofnað til formlegra tengsla við skipulögð, alþjóðleg glæpasamtök. Í síðari skýrslum er áfram varað við þessari þróun og á það bent, að „alls staðar þar sem Hells Angels hafa náð að skjóta rótum hefur aukin skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið“.

Óvarlegt væri að slá því föstu að koma Vítisengla til landsins hafi orðið til þess að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt. Þó virðist sem flest það sem greiningardeildin bendir á hafi ræst. Ekki síst þetta með hörkuna sem virðist hafa ágerst. Ekki þarf annað en að líta til nýliðins árs og svo fyrstu daga þessa árs.

Frelsissvipting og skotárás

Vélhjólasamtök voru áberandi í fyrra. Í október dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur tvo menn í þriggja og hálfs árs og þriggja ára fangelsi fyrir frelsissviptingu og stórfellda líkamsárás. Mennirnir voru kenndir við vélhjólasamtökin Black Pistons – annar þeirra forseti samtakanna – sem hefðu tengsl við vélhjólasamtökin Outlaws í Noregi, og væru svonefndur stuðningsklúbbur. Verjandi annars mannanna hafnaði þessu raunar alfarið, benti á að umræddir menn ættu ekki einu sinni bifhjól og varpaði fram þeirri spurningu hvernig um vélhjólasamtök gæti þá verið að ræða.

Samtökin komust aftur í fjölmiðla einum mánuði síðar. Þá var reyndar upplýst að Black Pistons væru ekki til lengur því samtökin hefðu fengið fulla aðild að Outlaws og bæru því það nafn. Þeim áfanga virðist hafa verið fagnað með skotárás í Bryggjuhverfinu því lögregla handtók nokkra einstaklinga tengda Outlaws í framhaldi af henni. Þeir sitja enn í gæsluvarðhaldi. Að mati lögreglu var um að ræða afbrot sem framið hafði verið með skipulögðum og verkskiptum hætti af hópi manna sem kennir sig við glæpasamtök.

Lögregla fór í nokkrar húsleitir í tengslum við málið og fann í einni þeirra mesta magn vopna sem fundist hefur í einni húsleit.

Vítisenglar einnig handteknir

Að endingu má nefna handtökur lögreglunnar í síðustu viku, en þá voru hnepptir í gæsluvarðhald fimm einstaklingar sem lögregla segir tengjast Vítisenglum. Komið hefur fram í fjölmiðlum að handtökurnar tengist tveimur árásum á konu en eftir þá fyrri var hún flutt meðvitundarlaus á sjúkrahús. Þá var tvennt handtekið en það hafði ekkert að segja, aftur var gengið í skrokk á konunni.

Meðal þeirra sem voru handteknir var forseti Vítisengla á Íslandi og sagði Ríkisútvarpið lögreglu telja að hann hafi fyrirskipað árásirnar. Ástæðan var sögð vera hefnd.

Verður ekki aftur snúið

Greiningardeild ríkislögreglustjóra vísar til þess í nýlegri skýrslu sinni að atburðir sem komu upp í fyrra séu til marks um aukna hörku í íslenskum undirheimum. „Greina hefur mátt þessa þróun hin síðustu ár og tæpast er ástæða til að ætla að henni verði snúið við þrátt fyrir snörp og fagmannleg viðbrögð lögreglu í þeim málum sem hér hefur verið vikið að.“

Árásin í Bryggjuhverfinu þykir sérstaklega til marks um þá hættu að til átaka komi með einstaklingum og hópum sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi. Ástæða sé til að ætla að hömluleysi fari vaxandi en samhliða því eru vísbendingar um að félagar í glæpahópum gangi oftar um vopnaðir og hafi lagt áherslu á að komast yfir vopn.

Við þessu var varað í fyrstu skýrslu greiningardeildarinnar en nú, fjórum árum síðar, telst hætta á átökum hópa sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi viðvarandi, ekki síst vopnuðum átökum.

Átak sem gefst vel

Vísbendingar um alvarlega skipulagða glæpastarfsemi hér á landi og að slík starfsemi væri að færast í vöxt varð til þess að ríkisstjórnin samþykkti í mars á síðasta ári að veita 47 milljónir króna í tólf mánaða átak lögreglunnar til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir um reynsluna af átakinu að það sé mat sitt að „áherslur lögreglunnar á aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi skipti mjög miklu máli og góður árangur hafi orðið af því starfi að undanförnu“.
Meta átti reynsluna af átakinu um þetta leyti og taka ákvörðun um það hvort haldið yrði áfram á sömu braut. Fyrirspurn til innanríkisráðherra um framhaldið var þó ekki svarað í gærdag.
En þetta er ekki það eina sem gert hefur verið til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi. Meðal annars má nefna að stefnt er að því að styrkja rannsóknarheimildir lögreglu þegar kemur að starfsemi skipulagðra glæpasamtaka. Með því er heimild lögreglunnar styrkt til að hefja rannsókn á máli þegar grunur leikur á að verið sé að undirbúa brot.
Þá verður lagt fram nýtt frumvarp um vopnalöggjöfina þar sem brugðist er við auknum vopnaburði. Til dæmis verða heimildir lögreglu til að leggja hald á skotvopn auknar auk annarra breytinga til að auka öryggi samfélagsins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert