Vilja efla tengsl Skota og Íslendinga

Ólafur Ragnar Grímsson átti fund með Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands.
Ólafur Ragnar Grímsson átti fund með Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands. Mynd af vefsíðu forsetaembættisins

Stjórnvöld í Skotlandi hafa áhuga á að kynnast reynslu Íslendinga frá heimastjórn til lýðveldis og vilja efla samvinnu Skotlands og Íslands. Þetta kom fram á fundi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, með Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands, í gær.

Ólafur Ragnar og Alex Salmond taka báðir þátt í Heimsþingi hreinnar orku sem nú er haldið í Abu Dhabi og áttu þeir fund við það tækifæri í gær. Í frétt frá skrifstofu forseta Íslands segir að á fundinum hafi komið fram ríkur vilji til að efla samvinnu landanna, bæði með tilliti til vaxandi sjálfstjórnar Skotlands og aukins mikilvægis norðurslóða.

„Nágrenni Íslands og Skotlands í Norður-Atlantshafi skapar fjölmörg tækifæri til arðbærrar samvinnu á komandi árum, t.d. í orkumálum með sæstrengjum frá Íslandi og Grænlandi til
Skotlands og í þjónustu við siglingar um norðurleiðina sem breyta mun flutningum milli Asíu, Ameríku og Evrópu,“ segir í fréttatilkynningu forsetaskrifstofunnar.


Þá hafi stjórnvöld í Skotlandi einnig áhuga á því að kynnast reynslu Íslendinga frá heimastjórn til lýðveldis, hvernig þróun efnahagslífs og þjóðfélags á undanförnum áratugum styrkti stöðu landsins á alþjóðavísu. 

„Einnig var á fundinum fjallað um viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins á Íslandi en forsætisráðherra Skotlands hefur gagnrýnt þau harðlega. Loks var rætt um mikilvægi sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda,“ segir í fréttatilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert