Bæjarráð Hafnarfjarðar telur að lög um orlof húsmæðra séu úrelt og ekki í samræmi við nútíma jafnréttissjónarmið.
„Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar þann 12. janúar sl. var tekið fyrir erindi frá orlofsnefnd húsmæðra í Hafnarfirði. Gengið var að kröfu orlofsnefndarinnar en bæjarráð ítrekar að það telur að lögin um orlof húsmæðra nr. 53/1972 séu úrelt og ekki í samræmi við gildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, nútíma jafnréttissjónarmið og jafnréttisáætlun Hafnarfjarðarbæjar,“ segir í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
Sveitarfélög skylduð til að greiða orlofsferðir húsmæðra
Hvetur bæjarráð Hafnarfjarðar þingmenn til að afnema lög um orlof húsmæðra og aflétta með því þessari fjárhagslegu kvöð sem gengur í grundvallaratriðum gegn almennum stefnumiðum opinberra aðila í jafnréttismálum árið 2012.
„Enn eru við lýði lög um orlof húsmæðra sem skylda sveitarfélög til að greiða sem nemur ákveðinni fjárhæð á hvern íbúa til orlofsnefndar húsmæðra í sveitarfélaginu. Það er samdóma álit bæjarráðs Hafnarfjarðar að umrædd lög séu ekki aðeins tímaskekkja heldur eru þau að auki í hróplegu ósamræmi við gildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 og jafnréttisstefnu Hafnarfjarðar.
Ekki má gera lítið úr þeim félagslegu áhrifum sem orlofsferðir húsmæðra hafa haft fyrir þær konur sem þær hafa farið. Verði lögin afnumin geta orlofsnefndirnar haldið áfram að skipuleggja ferðir kjósi þær svo. Aðkoma sveitarfélaganna yrði valkvæð og það sem mestu máli skiptir, íbúum væri ekki mismunað á grundvelli kynferðis.
Ríkisstyrkt húsmæðraorlof má rekja aftur til 1958 þegar sérstök fjárveiting var samþykkt vegna orlofs og sumardvalar húsmæðra frá barnmörgum heimilum. Hafði verið talað fyrir slíku fyrirkomulagi frá því 1944, en orlof fyrir almenna launþega var lögfest árið 1943. Það var svo árið 1960 sem lögfest voru lög um orlof húsmæðra, en tilgangur þeirra var að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa og veita húsmæðrum orlofsréttindi líkt og launþegum. Lögin gerðu ráð fyrir því að ríkissjóður og sveitarfélög veittu fé til sérstakra orlofsnefnda sem síðar skipulegðu orlof húsmæðra og veldu þátttakendur í samræmi við lög um húsmæðraorlof. Lögin voru sett í þeim anda sem ríkti þá og miðast við þjóðfélag þess tíma.
Fram til 1972 hvíldi greiðsluskylda vegna orlofs húsmæðra á ríkissjóði. Árið 1978 var hins vegar gerð sú breyting á lögunum að sveitarfélögum einum bar skylda til að greiða 100 kr. á hvern íbúa í viðkomandi sveitarfélagi til orlofs húsmæðra og er sú fjárhæð bundin vísitölu.
Frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972 var lagt fram á 138. löggjafarþingi 2009-2010. Auk þess hefur Jafnréttisstofa svarað fyrirspurn Vestmannaeyjabæjar um lögmæti laganna á þann veg að hún telji líkur á að lög um orlof húsmæðra samræmist ekki lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Sú gagnrýni sem kom frá árið 2010 þegar frumvarp um afnám laganna var lagt fram á Alþingi sneri að því að þrátt fyrir mikilvæga áfanga í jafnréttisbaráttu undanfarna áratugi ættu konur enn langt í land hvað varðar launakjör til jafns við karla. Í þessu samhengi skal þá bent á að lög um húsmæðraorlof voru á sínum tíma ekki sett fram til að jafna þennan mun heldur var þeim ætlað að jafna hlut þeirra fjölmörgu kvenna sem ekki áttu kost á orlofi frá vinnuveitanda þar sem þær voru ekki launþegar og því án allra hefðbundinna og lögbundinna orlofsréttinda sem einstaklingar.
Margt hefur breyst til batnaðar, ýmislegt áunnist í jafnréttisbaráttu og ljóst má vera að lögin eru í andstöðu við viðurkennd jafnréttissjónarmið dagsins í dag.
Við hvetjum því þingmenn til að afnema lög um orlof húsmæðra og aflétta með því þessari fjárhagslegu kvöð sem gengur í grundvallaratriðum gegn almennum stefnumiðum opinberra aðila í jafnréttismálum árið 2012.“