Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir óvíst hvaða áhrif niðurstaða Alþingis í kvöld muni hafa á stjórnarsamstarfið. „Það verður bara að koma í ljós,“ sagði hún við fréttamenn eftir atkvæðagreiðslu í kvöld þegar Alþingi felldi tillögu um að taka af dagskrá þingsályktunartillögu formanns Sjálfstæðisflokksins um að fella niður málsókn á hendur Geir H. Haarde fyrir Landsdómi.
Spurð um eigið mat á áhrifunum á stjórnarsamstarfið sagði Jóhanna: „Ég hef ekki hugmynd um það. Ég vona ekki. Það eru mörg verk sem eru óunnin hér sem þarf að klára, þannig að ég vona ekki,“ að því er segir í frétt Smugunnar.
Jóhanna segist hafa vonast til þess að niðurstaða Alþingis yrði önnur. „Ég taldi að málið væri úr höndum Alþingis og ætti að fá sína lúkningu fyrir dómstólum. En nú er málið áfram í ferli þingsins og við það situr.“
Fjallað verður um tillögu Bjarna Benediktssonar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Jóhanna segir, spurð hvort Alþingi eigi eftir að afgreiða tillögu Bjarna. „Tíminn einn getur svarað því,“ samkvæmt viðtali við Jóhönnu á Smugunni í kvöld.