Ögmundur varði ákvörðun sína

Björn Valur Gíslason og Ögmundur Jónasson fluttu framsögu á fundi …
Björn Valur Gíslason og Ögmundur Jónasson fluttu framsögu á fundi VG í Reykjavík í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra varði ákvörðun sína í landsdómsmálinu á Alþingi á fundi VG í Reykjavík í kvöld. Um 60 manns mættu á fundinn, samkvæmt RÚV, m.a. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, og Björn Valur Gíslason þingflokksformaður, sem var með framsögu ásamt Ögmundi.

Fram kom hjá Ögmundi að hann teldi að það ætti að hætta við ákæruna á hendur Geir H. Haarde, fv. forsætisráðherra. Kæran væri yfirborðskennd tilraun til uppgjörs við fortíðina. Það sem þyrfti að gera væri að læra af mistökunum í hruninu og aðdraganda þess. Taka á rótum vandans, spillingu, kvótabraski, aðferðinni við einkavæðingu bankanna og fleiri málum af  því tagi. 

Þorvaldur Þorvaldsson minnti á að ef dæma ætti Geir sekan fyrir þá pólitísku stefnu að einkavæða banka hlyti Steingrímur J. Sigfússon einnig að verða dreginn fyrir rétt af því að hann hefði einkavætt þá á ný eftir hrun!

  Björn Valur skýrði afstöðu sína til kærunnar gegn Geir, en Björn var meðal þeirra þingmanna sem vildu vísa tillögu Bjarna Benediktssonar frá. ,,Ég hef ekki séð nein haldgóð rök fyrir því að falla frá þessu máli," sagði Björn Valur en sagði að enginn í þingflokknum hefði verið sáttur við að þurfa að draga Geir fyrir dóm.

Margir kvöddu sér hljóðs með spurningum til framsögumanna eða til að viðra skoðanir sínar. Ámundi Loftsson rifjaði upp að hann hefði verið viðstaddur þegar greidd voru atkvæði á Alþingi um það hvort kæra bæri ráðherra vegna hrunsins. Það hefði verið ömurlegt að upplifa, hann hefði aldrei séð ljótari áru en þá hvíldi yfir þingi. Einnig velti hann fyrir sér hvort VG hefði yfirleitt tekið með einhverjum hætti á afleiðingum hrunsins í stjórnartíð flokksins, nú þegar þúsundir manna vær að flýja landið og enn fleiri að missa aleiguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert