Skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag tillögu sjálfstæðismanna um að endurskoða deiliskipulag Öskjuhlíðar. Tillagan var upprunalega lögð fram af Júlíusi Vífli Ingvarssyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í borgarráði en þaðan var henni vísað til skipulagsráðs borgarinnar.
„Ástæðan fyrir þessu er náttúrlega þetta söluferli sem Perlan var sett í. Þau tilboð sem bárust í Perluna miðuðust öll við það að hægt væri að byggja á svæðinu í kringum Perluna með mismunandi miklum hætti,“ segir Júlíus Vífill og bætir við, „það tilboð sem hæst var gerði ráð fyrir stórri hótelbyggingu og ýmsum öðrum byggingum í nágrenni við Perluna án þess að neitt slíkt sé heimilt samkvæmt gildandi deiluskipulagi.“
Að sögn Júlíusar Vífils bendir þetta til þess að söluferli Perlunnar hafi verið illa undirbúið. „Úr því að allir hafa nálgast þetta með sama hætti þá er ekki hægt að álykta á annan veg en svo að skilaboð til tilboðsgjafa hafi verið það óskýr að þeir hafi haldið að þeir væru að bjóða í byggingasvæði en ekki bara í Perluna sem er aðallega hús fyrir veitingastað.“ Júlíus Vífill segir að eðli máls samkvæmt hljóti hugmyndir um byggingar á þessu svæði að vera settar til hliðar þangað að niðurstaða deiliskipulagsins liggur fyrir.
Í bókun skipulagsráðs er gert ráð fyrir því haldin verði samkeppni um skipulag svæðisins. Aðspurður hvort öllum sé frjálst að taka þátt í samkeppninni segir Júlíus Vífill: „Við leggjum það til í tillögunni að það verði skoðað að hafa samkeppnina tvískipta þannig að hún verði bæði fyrir almenning og fagaðila, til þess að tryggja það að allir geti komið að henni.“
Júlíus Vífill telur að vinna við deiliskipulagið geti tekið hátt í eitt ár. „Þetta ferli gæti auðveldlega tekið hátt í eitt ár vegna þess að skipulagsgerð af einföldustu tegund tekur hálft ár að minnsta kosti en þetta er mun stærra svæði, mun flóknara og meira mál og það er mikilvægt að ná samráði við borgarbúa um þetta,“ segir Júlíus Vífill aðspurður hversu langan tíma hann telji að það taki að gera nýtt deiliskipulag. Hann vonast til þess að undirbúningsvinna fyrir nýja deiliskipulagið geti hafist í vor.