Málinu beri að vísa frá

Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, Baldur Guðlaugsson og Karl Axelsson í Hæstarétti …
Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, Baldur Guðlaugsson og Karl Axelsson í Hæstarétti í morgun. mynd/Pressphotos.biz

Karl Axelsson, verjandi Baldurs Guðlaugssonar, fór fram á það í Hæstarétti í morgun að máli á hendur skjólstæðingi sínum væri vísað frá dómi. Sagði hann engin ný gögn hefðu verið í málinu þegar ákveðið var að hefja rannsókn að nýju, en áður hafði Fjármálaeftirlitið fellt mál á hendur Baldri niður. Því væri um að ræða endurtekna málsmeðferð sem sé í andstöðu við ákvæði mannréttindasáttamála Evrópu.

Áður en Karl flutti mál sitt fór Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, fram á það að refsing yfir Baldri yrði þyngd. Benti hún á að refsiramminn leyfði allt að níu ára fangelsi, en Baldur var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í tveggja ára fangelsi, fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Þá var söluandvirði hlutabréfa í Landsbankanum, sem Baldur seldi, gert upptækt en um var að ræða 192 milljónir króna.

Í ræðu Karls fór hann yfir að Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á málinu og lauk henni með því að málið var fellt niður, en með þeim fyrirvara að taka mætti upp málið aftur ef ný gögn kæmu fram. Það var svo gert, á grundvelli nýrra gagna, og málið sent sérstökum saksóknara. Karl sagði að ljóst væri að ákæruvaldið hefði ekki sýnt fram á nein ný gögn í málinu sem réttlættu að málið hefði verið tekið upp að nýju. Þvert á móti hefðu öll gögn verið tiltæk þegar málið var látið niður falla.

Baldur lét reyna á að rannsókn sérstaks saksóknara væri ólögleg vegna þessarar sömu röksemdar en bæði héraðsdómur og Hæstiréttur töldu hana lögmæta. Karl sagði að þar hefði aðeins verið til úrlausnar hvort rannsóknin hefði verið lögmæt. Nú þyrfti að skera úr um hvort heimilt hefði verið að gefa út ákæru í málinu, og hvort ný gögn hefðu komið fram sem heimiluðu það. Hann sagði það nú loksins liggja fyrir hvort svo væri.

Karl benti á að Fjármálaeftirlitið hefði átt aðkomu að samráðshópnum sem Baldur sat í, og hefði því haft öll sömu gögn og Baldur undir höndum, og raunar ítarlegri upplýsingum. Það sé grundvallaratriði að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sýna fram á að ný gögn hafi komið fram eftir að málið var látið niður falla. Og að það ætti í raun ekki að vera flókið. Hann sagði ákæruna og allan málatilbúnað fela í sér endurtekna málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi og það fari gegn mannréttindasáttmála Evrópu, og af þeirri ástæðu eigi að vísa málinu frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka