Páll og Guðrún verðlaunuð

Páll Björnsson og Guðrún Eva Mínervudóttir með verðlaunin á Bessastöðum …
Páll Björnsson og Guðrún Eva Mínervudóttir með verðlaunin á Bessastöðum nú síðdegis. mbl.is/Árni Sæberg

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti í dag Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin hlaut í flokki fagurbókmennta Guðrún Eva Mínervudóttir fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur, gefin út af JPV útgáfu, og í flokki fræðirita og bóka almenns efnis Páll Björnsson sagnfræðingur fyrir bókina Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar sem Sögufélagið gefur út. Þetta er í tuttugasta og þriðja skiptið sem verðlaunin eru afhent en fyrst var tilnefnt til þeirra árið 1989.

Forseti Íslands setti samkomuna en því næst flutti Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, stutta tölu og kynnti tilnefnda höfunda. Forseti Íslands kynnti niðurstöður dómnefndar og afhenti verðlaunin. Verðlaunahöfundar ávörpuðu gesti.

Þriggja manna lokadómnefnd, skipuð þeim Þorgerði Jennýjardóttur Einarsdóttur, prófessor við Háskóla Íslands, Árna Matthíassyni blaðamanni og Þorsteini Gunnarssyni, sérfræðingi hjá RANNÍS og fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, sem var formaður, valdi verkin úr hópi tíu bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember síðastliðnum, fimm í flokki fagurbókmennta og fimm í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna í hvorum flokki. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens – opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Lay Low söng lögin Horfið, lag Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir og ljóð Valborgar Bentsdóttur og Gleðileg blóm, lag og texti Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir. Bæði eru lögin af disknum Brostinn strengur sem kom út á síðasta ári og á eru lög Lay Low við ljóð eftir íslenskar skáldkonur.

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fagurbókmennta:

Guðrún Eva Mínervudóttir: Allt með kossi vekur. Útgefandi: JPV útgáfa

Hallgrímur Helgason: Konan við 1000°. Útgefandi: JPV útgáfa

Jón Kalman Stefánsson: Hjarta mannsins. Útgefandi: Bjartur

Oddný Eir Ævarsdóttir: Jarðnæði. Útgefandi: Bjartur

Steinunn Sigurðardóttir: jójó. Útgefandi: Bjartur

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis:

Ármann Jakobsson og Þórður Ingi Guðjónsson: Morkinskinna I. og II. bindi. Útgefandi: Hið íslenzka fornritafélag

Inga Elsa Bergþórsdóttir og Gísli Egill Hrafnsson: Góður matur, gott líf – í takt við árstíðirnar. Útgefandi: Vaka-Helgafell

Jón Yngvi Jóhannsson: Landnám – ævisaga Gunnars Gunnarssonar. Útgefandi: Mál og menning

Páll Björnsson: Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar Útgefandi: Sögufélag

Sigríður Víðis Jónsdóttir: Ríkisfang: Ekkert - Flóttinn frá Írak á Akranes Útgefandi: Mál og menning

Verðlaunin fyrst afhent 1989

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda sem stofnað var í Reykjavík í janúar 1889. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Fyrsti verðlaunahafinn var ljóðskáldið Stefán Hörður Grímsson sem hlaut verðlaunin fyrir bókina Yfir heiðan morgun. Verðlaunaféð var ein milljón króna. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, flokk skáldverka og flokk fræðibóka/bóka almenns efnis og hefur verið svo síðan.

Tilnefnt er í upphafi desember hvert ár og verðlaunin síðan veitt síðla janúar eða í upphafi febrúar. Óháðar tilnefninganefndir, skipaðar þremur, velja þær fimm bækur í hvorum flokknum sem helst þykja skara fram úr. Lokaval er í höndum formanna nefndanna tveggja og forsetaskipaðs dómnefndarformanns og velja þeir tvær bækur hvora úr sínum flokki sem hljóta verðlaunin. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Bessastöðum við hátíðlega athöfn. Allir sem gefa út bækur á Íslandi geta lagt fram bækur til verðlaunanna, hvort sem þeir eru í Félagi bókaútgefenda eða ekki, og greiða hóflegt gjald. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvorn verðlaunahafa.

Þeir sem áður hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin eru:

1989 Stefán Hörður Grímsson

1990 Fríða Á. Sigurðardóttir og Hörður Ágústsson

1991 Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson

1992 Þorsteinn frá Hamri og Vésteinn Ólason, Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson

1993 Hannes Pétursson og Jón G. Friðjónsson

1994 Silja Aðalsteinsdóttir og Vigdís Grímsdóttir

1995 Steinunn Sigurðardóttir og Þór Whitehead

1996 Böðvar Guðmundsson og Þorsteinn Gylfason

1997 Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson

1998 Hörður Ágústsson og Thor Vilhjálmsson

1999 Andri Snær Magnason og Páll Valsson

2000 Gyrðir Elíasson og Guðmundur Páll Ólafsson

2001 Hallgrímur Helgason og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

2002 Ingibjörg Haraldsdóttir og Pétur M. Jónasson, Páll Hersteinsson,

2003 Ólafur Gunnarsson og Guðjón Friðriksson

2004  Auður Jónsdóttir og Halldór Guðmundsson

2005 Jón Kalman Stefánsson og Kristín G. Guðnadóttir, Gylfi Gíslason, Arthur C. Danto, Matthías Johannessen, Silja Aðalsteinsdóttir, Eiríkur Þorláksson

2006 Ólafur Jóhann Ólafsson og Andri Snær Magnason

2007 Sigurður Pálsson og Þorsteinn Þorsteinsson

2008 Einar Kárason og Þorvaldur Kristinsson

2009 Guðmundur Óskarsson og Helgi Björnsson

2010 Gerður Kristný og Helgi Hallgrímsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert