Varúðarstigi lýst yfir fyrir vestan

Súðavíkurhlíð.
Súðavíkurhlíð. mynd/Halldór

Varúðarstigi hefur verið lýst yfir á Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu. Snjóflóðahætta er að myndast á Vestfjörðum öllum í dag. Vegagerðin varaði einnig við mögulegri snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla og norðanverðum Tröllaskaga.

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar er á fundi með veðurfræðingi vegna veðursins.

Ástæða til að vera á varðbergi
Geir Sigurðsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, segir veðurspána það slæma að ástæða sé til að vera á varðbergi.

Aðspurður segir hann það stanslaust í skoðun hvort ástæða sé til að loka vegum. „Mér finnst það alla vega ekki ólíklegt að sett verði á varúðarstig á Súðavíkurhlíð í dag,“ segir Geir. Hins vegar verði að hafa í huga að vegir séu ófærir í Súgandafirði og Önundarfirði og þar ætti enginn að vera á ferðinni eins og staðan er núna.

Þegar spurt er hvað vegfarendur á Vestfjörðum eigi að hafa í huga við þessar aðstæður segir Geir að á norðanverðum Vestfjörðum og þegar líða tekur á daginn á Vestfjörðum öllum verði ekkert ferðaveður.

„Við ráðleggjum fólki að halda sig heima við í dag,“ segir Geir en nokkuð hvasst sé nú á Ísafirði og  þungfært.

Á Vestfjörðum er þungfært og þæfingsfærð víða. Ófært er á Gemlufallsheiði, Klettshálsi, Hálfdán og Mikladal. Ófært og stórhríð er í Önundar- og Súgandarfirði og Ísafjarðardjúpi.


Snjóflóðahætta ef bætir í vind
Vegagerðin varaði einnig við mögulegri snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla og norðanverðum Tröllaskaga í dag. Þar er nú hæg norðanátt og snjóar töluvert að sögn Sigurðar Jónssonar, yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni í Eyjafirði. „Að sögn veðurfræðings er talið að bæta fari í vind með kvöldinu og þá verður snjóflóðahætta í Ólafsfjarðarmúlanum,“ segir Sigurður. Ágætis vetrarfæri sé  á svæðinu eins og er en hann hvetur vegfarendur til að fylgjast vel með tilkynningum frá Vegagerðinni. Hún láti vita ef loka þurfi vegum og það sé gert í samráði við lögreglu. „Það eru allir viðbúnir. Tilbúnir að taka í taumana ef eitthvað bregður út af,“ segir Sigurður.

Funda vegna snjóflóðahættu
Síðasta sólarhringinn hafa ekki borist neinar tilkynningar um snjóflóð til snjóflóðavaktar Veðurstofunnar en í ljósi veðurspár er fylgst vel með að sögn Auðar Kjartansdóttur hjá vaktinni. Hún mun funda kl. 11 í dag með veðurfræðingi í ljósi veðursins sem er að skella á og er skollið á að hluta til á Vestfjörðum.

Mikil snjókoma er nú á því svæði. „Spár segja von á allt að 50-100 millimetra úrkomu á norðanverðum Vestfjörðum og eitthvað minni á sunnanverðum Vestfjörðum,“ segir Auður.  

Einnig sé fylgst vel með á Norðurlandi þar sem töluvert snjói. Þegar rætt er um snjóflóðahættu segir Auður að með sterkum vindi skafi og snjór setjist hlémegin fjalla og það auki líkurnar á að snjóflóð falli. Snjóflóðavaktin fundi um snjóflóðahættuna bæði fyrir norðan og vestan núna kl. 11.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert