Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að leysingin um helgina verði ákveðin ofan í allan þann snjó sem fyrir sé. Það fari saman hvassviðri, 5 til 7 stiga hiti og talsverð rigning sunnanlands og vestan í meira en sólarhring á morgun og fram á sunnudag.
„Snjórinn er vitanlega feykilega mikill suðvestanlands og megnið af honum er nýlegur og hann er því auðleystur. Undir er klaki, en þó ekki þar sem vel hafði verið hreinsað í síðasta blota. Það losnar um snjóinn, hann blotnar síðar í dag þegar skil lægðar gangi yfir. Upp úr miðjum degi á morgun byrjar vatnselgurinn fyrir alvöru þegar tekur að rigna samfellt aftur um sunnan- og vestanvert landið með vindi og hlýindum,“ skrifar Einar á veðurblogg sitt.