Aðgerðum að ljúka

Aðgerðum er að ljúka við Hverfisgötu þar sem torkennilegur hlutur fannst í morgun, en grunur lék á að um sprengjuleifar væri að ræða. Um kl. 10:30 var hluturinn gerður óvirkur og kom í ljós að ekkert sprengiefni var í honum. Mikill viðbúnaður hefur verið á svæðinu og hefur honum ekki verið aflétt.

Lögreglan hefur lítið viljað tjá sig um málið og vísar til rannsóknarhagsmuna. Hins vegar þykir ljóst, að hluturinn hefur verið útbúinn líkt og sprengja þótt engin hleðsla hafi verið í honum þegar honum var eytt með sprengjueyðingarvélmenni. Vaktmaður forsætisráðuneytisins, sem var í húsinu við Hverfisgötu 4 í morgun, taldi sig hafa heyrt hvell snemma í morgun. Skömmu síðar sást hluturinn á gangstéttinni framan við húsið.  Um var að ræða grænan bensínbrúsa úr plasti sem hafði verið festur við hlut sem líktist sprengju.

Öryggismyndavélar eru á húsunum en ekki er vitað hvort myndir hafi náðst af því þegar hlutnum var komið fyrir.

Skrifstofur forsætisráðuneytisins við Hverfisgötu voru rýmdar áður en sprengjusveitarmenn fóru að eiga við hlutinn, en þeir notuðu sprengjuleitarvélmenni til að skjóta hleðslu á hann. Hvellur heyrðist 10:35 þegar hleðslunni var skotið.

Fjölmennt lögreglulið hefur verið á vettvangi frá því um kl. 9 í morgun. Sérsveitin var kölluð á staðinn sem og sprengjusveitarmenn, sem fyrr segir.

Lögregla lokaði af hluta Hverfisgötu í Reykjavík, eða frá Lækjargötu að Ingólfsstræti. Þá var húsnæði ríkissaksóknara í Hverfisgötu 6 rýmt.

Stjórnarráðið var ekki rýmt samkvæmt upplýsingum þaðan. Þá framkvæmdu lögreglumenn leit fyrir utan skrifstofur innanríkisráðuneytisins við Sölvhólsgötu í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert