Kona, sem ekki var nafngreind, sagðist í fréttum Ríkisútvarpsins hafa heyrt tvær öflugar sprengingar á Hverfisgötu í Reykjavík með stuttu millibili laust eftir klukkan 6:30 í morgun. Þá sagðist hún hafa séð mann flýja af vettvangi.
Konan sagðist hafa verið að ganga niður Hverfisgötuna á sjöunda tímanum í morgun á leið til vinnu þegar hún heyrði öfluga sprengingu. Hún hafi síðan heyrt aðra sprengingu skömmu síðar og séð logandi kassa á gangstéttinni.
Þá sagðist konan hafa séð karlmann hlaupa upp Hverfisgötu og fara inn í lítinn hvítan sendibíl og aka á brott með hraði. Lýsti konan manninum þannig, að hann hefði verið um fimmtugt, lágvaxinn og feitlaginn í gallabuxum og dökkri hettuúlpu.
Konan hringdi í lögregluna og tilkynnti um atvikið og hélt síðan áfram för sinni.