Vill friða innra byrði Fríkirkjuvegar 11

Fríkirkjuvegur 11
Fríkirkjuvegur 11 Árvakur/Sverrir

Húsafriðunarnefnd hefur óskað eftir því að forstöðumaður hefji undirbúning að friðun innra byrðis hússins á Fríkirkjuvegi 11. Björgólfur Thor Björgólfsson, eigandi hússins, hefur lagt fram beiðni um miklar breytingar innan dyra, en hann hyggst meðal annars brjóta niður veggi og stækka dyraop.

Málið var tekið fyrir á síðasta fundi Húsafriðunarnefndar. Í fundargerð segir meðal annars: „Í fyrirliggjandi tillögum er gert ráð fyrir miklum breytingum á innra byrði hússins, s.s. færslu á aðalstiga og veggjum, niðurtöku stiga og gerð nýrra, niðurbroti veggja og mikilli fjölgun og stækkun dyraopa. Talið er að með þessum breytingum verði gildi þessa glæsilega húss rýrt meira en ásættanlegt getur talist þegar svo varðveisluvert hús á í hlut.“

Þá segir að húsið, sem er friðað, sé að miklu leyti í upprunalegri mynd, bæði að innra og ytra byrði, frá því er Thor Jensen lét reisa það á árunum 1907-08, enda hafi allar endurbætur á húsinu í gegnum árin miðast að því að bera virðingu fyrir þeim stórhug og því vandaða handverki sem húsið beri vitni um.

Endanlegri afgreiðslu var frestað og verður málið tekið fyrir á næsta fundi Húsafriðunarnefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert