Lára Margrét Ragnarsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, varð bráðkvödd á heimili sínu í Reykjavík sunnudaginn 29. janúar. Hún var 64 ára að aldri.
Lára Margrét fæddist í Reykjavík 9. október 1947, dóttir hjónanna Ragnars Tómasar Árnasonar, útvarpsþular og verslunarmanns, og konu hans, Jónínu Vigdísar Schram læknaritara. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands og stundaði framhaldsnám við Verslunarháskólann í Björgvin.
Lára Margrét var skrifstofustjóri Læknasamtakanna 1968-1972, ráðgjafi í sjúkrahússtjórn hjá Arthur D. Little 1982-1983 og forstöðumaður áætlanadeildar Ríkisspítalanna 1983-1985. Á árunum 1985-1989 var Lára Margrét framkvæmdastjóri Stjórnunarfélags Íslands og kenndi jafnframt heilsuhagfræði. Þá var hún forstöðumaður þróunardeildar Ríkisspítalanna 1989-1991.
Lára Margrét var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík frá árinu 1991 til 2003, sat í utanríkismálanefnd, umhverfisnefnd og heilbrigðis- og trygginganefnd. Einnig gegndi hún ýmsum trúnaðar – og félagsstörfum um ævina. Sat hún m.a. í heilbrigðisnefnd Sjálfstæðisflokksins, var stjórnarformaður Steinullarverksmiðjunnar og sat í fulltrúaráði Sólheima í Grímsnesi. Frá 1987 til 2000 var Lára Margrét í stjórn Íslensku óperunnar, í stjórn Íslensk-ameríska félagsins 1987-1996 ásamt því að gegna formennsku í Skálholtsnefnd 1991-1993. Á árunum 1995-1999 sat hún þing Vestur-Evrópusambandsins og gegndi formennsku í Íslandsdeild þess.
Lára Margrét var ötul baráttukona fyrir mannréttindum og lýðræði. Hún sat í Íslandsdeild Evrópuráðsins 1991-2003, þar af formaður deildarinnar 1995-2003 og varaforseti Evrópuráðsins 1998-2000. Í störfum sínum á vegum Evrópuráðsins kom hún víða við og stýrði m.a. rannsóknum á afleiðingum kjarnorkuslyssins í Tsjernobyl og aðbúnaði stríðsfanga í Tsjetsjeníu.
Lára Margrét giftist Ólafi Grétari Guðmundssyni augnlækni. Þau skildu. Börn þeirra eru Anna Kristín, Ingvi Steinar og Atli Ragnar.