Vanmátu fyrstu tilkynninguna

Lögreglan var með mikinn viðbúnað þegar tilkynning barst í gær …
Lögreglan var með mikinn viðbúnað þegar tilkynning barst í gær um að torkennilegur hlutur hefði fundist við Hverfisgötu. Hins vegar var ekki brugðist við tilkynningu sem barst fyrr um morguninn, þ.e. að hvellir hefðu heyrst við götuna. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að vanmat hafi leitt til þess að lögreglumenn voru ekki sendir á vettvang þegar tilkynning barst í gærmorgun um að hvellir hefðu heyrst við Hverfisgötu.

Hann segir að menn fari nú yfir verkferla í tengslum við málið og reyni að læra af því.

Tilkynningin barst til fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar um sjöleytið í gærmorgun en það leiddi ekki til tafarlausra viðbragða lögreglu. Sá sem hringdi sagðist hafa heyrt hvelli.

Um einum og hálfum tíma síðar barst síðan önnur tilkynning frá vegfaranda um að torkennilegur hlutur, sem síðar kom í ljós að var sprengja, hefði fundist við götuna. Þá brást lögregla við og lokaði svæðinu. Í framhaldinu stýrðu sprengjusérfræðingar sérsveitar ríkislögreglustjóra aðgerðum á vettvangi, en þeir nutu liðsinnis sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar.

„Neyðarsímtöl fara í gegnum Neyðarlínuna og lögreglumál færast yfir á fjarskiptamiðstöð lögreglunnar. Og það virðist hafa verið eitthvað vanmat á tilkynningu að ræða. Þess vegna var ekki sent á staðinn strax. En við erum að fara yfir alla ferlana og skoða málið betur,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

„Það gerist stundum að tilkynnt er um einhvera hvelli; kínverja og svoleiðis. En það er nokkuð ljóst að það er eitthvert vanmat á ferðinni,“ segir Jón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert