Áfram í haldi vegna smygls

Sævar Sverrisson, fangavörður og lögmaður hans.
Sævar Sverrisson, fangavörður og lögmaður hans. Sigurgeir Sigurðsson

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem ákærður hefur verið fyrir innflutning á miklu magni fíkniefna og steralyfja. Hann verður í varðhaldi til 28. febrúar nk. eða þar til dómur fellur í máli hans.

Þingfesting hefur þegar farið fram í málinu en manninum, Sævari Sverrissyni, er gefið að sök að hafa ásamt Geir Hlöðveri Ericssyni flutt inn tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur, 200 grömm af kókaíni og tæpum tólf grömmum af MDMA-dufti. Einnig töluverðu magni steralyfja.

Fíkniefnin og steralyfin voru flutt til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi sem lagði að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði 10. október. Sævar játaði við þingfestingu að hafa flutt inn steralyfin en sagðist ekki hafa vitað af fíkniefnunum í gámnum.

Fyrirhugað er að aðalmeðferð fari fram 16. febrúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert