Fyrsta sending Góu af Sinalco seldist upp á þremur dögum en gert var ráð fyrir að sú sending myndi endast í 2-4 vikur. Margir hafa því ákveðið að rifja upp gamla og góða tíma, með Sinalco-bragð í munni.
Góa á nú ekkert til á lager og Sinalco verður því ófáanlegt aftur í allt að 10 daga þar til næsta sending kemur til landsins, segir í tilkynningu.
„Við fögnum og þökkum kærlega fyrir frábærar móttökur á þessum vinsæla drykk á meðan við hörmum það að Sinalco er enn einu sinni ófáanlegt þó að það sé aðeins í stuttan tíma,“ segir í tilkynningu frá Góu.
„Við vonumst eftir því að Sinalco-leysi okkar muni ekki valda neinum miklum óþægindum en Íslendingar ættu að vera vanir því að Sinalco fáist ekki í verslunum. Næsta sending mun verða margfalt stærri en við áætluðum í okkar plönum til að forða þjóðinni frá öðru Sinalco-leysi.“