Seldu fyrir hrun og keyptu áhættusöm bréf

Kristján Geir Pétursson starfsmaður og úttektarnefndarmennirnir, Héðinn Eyjólfsson, Guðmundur Heiðar …
Kristján Geir Pétursson starfsmaður og úttektarnefndarmennirnir, Héðinn Eyjólfsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson og Hrafn Bragason. Morgunblaðið/Kristinn

Meginástæðan fyrir því að Lífeyrissjóður verkfræðinga tapaði meira í hruninu en aðrir lífeyrissjóðir er að hann seldi í mars 2008 helming erlendra eigna sjóðsins og keypti í kjölfarið áhættusöm UBS-skuldabréf. Þau bréf töpuðust.

Eignir Lífeyrissjóðs verkfræðinga námu í árslok 2007 30,7 milljörðum króna. Sjóðurinn tapaði á árunum 2008-2010 16,2 milljörðum eða meira en helmingi allra eigna sinna. Þetta er hlutfallslega mesta tap sem nokkur lífeyrissjóður varð fyrir.

Ávöxtun Lífeyrissjóðs verkfræðinga hefði lengst af verið undir meðaltali. Nokkur óeining hafði verið innan sjóðsins, m.a. vegna slakrar ávöxtunar. Því er velt upp í skýrslu úttektarnefndarinnar að þetta kunni að hafa átt þátt í að stjórn lífeyrissjóðsins tók stuttu fyrir hrun ákvarðanir sem fólu í sér meiri áhættu og þar með, þegar upp var staðið, meira tap fyrir sjóðinn.

Stjórn lífeyrissjóðsins tók ákvörðun á fundi 18. mars 2008 að selja helming erlendra eigna sjóðsins. Salan nam 3,6 milljörðum. Fyrir þessu voru þrenn rök: að innleysa gengishagnað, að draga úr áhættu af erlendri hlutabréfaeign og að ekki væri hægt að gera viðunandi framvirka samninga vegna erfiðleika á gjaldeyrismarkaði.

Ákvörðunin er tekin skömmu áður en gengi krónunnar tók að falla. Meðan gengi krónunnar styrktist lækkaði bókfært verðmæti erlendra eigna sjóðsins. Eftir á má sjá að ákvörðun um að selja erlendu eignirnar var tekin á eins óheppilegum tíma og hægt var. Hefði sjóðurinn frestað því að selja erlendu eignirnar hefði verðmæti þeirra aukist umtalsvert þegar gengi krónunnar tók að falla.

Fjárfestingar Lífeyrissjóðs verkfræðinga í mars 2008 reyndust heldur ekki vel. Á stjórnarfundi þann 25. mars tilkynnti framkvæmdastjóri að keypt hefði verið skuldabréf af svissneska bankanum UBS sem var lánshæfistengt að jöfnu við Glitni og Kaupþing.

Ásetningurinn með þessum kaupum var að reyna að hagnast á skuldatryggingarálaginu sem þá var mjög hátt á íslensku bankana. Það var gert í krafti þeirrar skoðunar að íslensku bankarnir myndu lifa af þá kreppu sem gekk yfir viðskiptalíf heimsins árin
2007 og 2008 og styrkja stöðu sína aftur.

Úttektarnefndin segir að þetta sé skiljanlegt sjónarmið en það sé ljóst að stjórn sjóðsins tók mikla áhættu þegar þessi kaup voru samþykkt.

Úttektarnefndin segir að með kaupum á þessu skuldabréfi hafi sjóðurinn í raun verið að veðja á að bankarnir mundu standa en skuldatryggingarálagið var mjög hátt á þessum tíma, raunar alveg út úr kortinu að margra mati. „Horfur á mörkuðum áttu þó enn eftir að versna svo sem kunnugt er. Í samræmi við skilmála bréfsins var það síðar innkallað sem varð til þess að sjóðurinn lagði fram 1.500 til 1.600 mkr. til viðbótar við fjárfestinguna en áður höfðu verið lagðar fram 1.000 mkr. til kaupanna. Fleiri lífeyrissjóðir höfðu keypt í þessum flokki, en bökkuðu nú út með verulegu tapi. Annar lífeyrissjóður hélt þó stöðu sinni eins og Lífeyrissjóður verkfræðinga, en upphafleg fjárfesting þeirra var helmingi lægri og sjóðurinn verulega stærri,“ segir í skýrslunni.

Lífeyrissjóður verkfræðinga lagði upphaflega einn milljarð í þessa fjárfestingu. Hann ákvað hins vegar að leggja fram meira fé í stað þess að bakka út og tapaði því á endanum 2,6 milljörðum á fjárfestingunni.

Í skýrslu úttektarnefndarinnar er vikið að togstreitu sem var milli Sigurðar Áss Grétarssonar, stjórnarformanns lífeyrissjóðsins, og Stefáns Halldórssonar framkvæmdastjóra. „Miðað við yfirlit um starfsemi sjóðsins, svo og árangur og samanburð við þá sjóði sem betur komu út úr falli bankanna virðist úttektarnefndinni sem stjórn sjóðsins hafi verið afskiptasöm um fjárfestingar og nokkuð áhættusækin, en framkvæmdastjórnin aftur á móti helst til víkjandi.“

Tapaði á skuldavafningum

Lífeyrissjóður verkfræðinga keypti í erlendum skuldavafningum, en þessi skuldabréf voru mikið til umfjöllunar þegar niðursveiflan var að byrja á fjármálamarkaði í Bandaríkjunum. Sjóðurinn átti fjóra skuldavafninga. Tveir vafninganna voru seldir með milligöngu Kaupþings og tveir með milligöngu Landsbanka Íslands. Skuldavafningarnir hækkuðu mjög í verði árið 2008 vegna falls íslensku krónunnar. Á árinu 2009 lækkuðu þeir hins vegar mikið í verði erlendis og fór svo að sjóðurinn varð að afskrifa vafningana nánast að fullu. Tap sjóðsins af erlendum verðbréfum nam rösklega milljarði og er mestallt tapið til komið vegna skuldavafninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert