Deilt um línur í lofti og á láði

Þétt net rafmagnslína er við Hellisheiðarvirkjun og mynda háspennumöstrin hálfgerðan …
Þétt net rafmagnslína er við Hellisheiðarvirkjun og mynda háspennumöstrin hálfgerðan skóg á heiðinni. Mbl.is/ Þorvaldur Örn Kristmundsson

Lagning háspennulína mætir vaxandi mótstöðu. Auknar kröfur eru gerðar um að leggja heldur jarðstrengi til að komast hjá þeirri sjónmengun sem mörgum finnst rafmagnsmöstrin vera í náttúrunni. Áætlunum Landsnets um nýjar háspennulínur hefur víða verið mótmælt, nú síðast í Kjósarhreppi.

Ríflega 3.000 km af háspennulínum tilheyra flutningskerfi Landsnets. Meirihluti þeirra er loftlínur, sem teygja sig um landið þvert og endilangt tengdar háum möstrum, og mörgum þykir skera í augu. Ekki er langt síðan flutningskerfi rafmagns var allt í lofti en í flestum löndum verða jarðstrengir nú fyrir valinu þegar um raforkuflutning í miklu þéttbýli er að ræða. Það á líka við á Íslandi, en þegar kemur að flutningi milli byggðarlaga og landshluta eru loftlínur hinsvegar enn fyrsta val, fyrst og fremst vegna kostnaðar við jarðstrengina.

Loftlínum mótmælt norðanlands- og sunnan

Á næstu árum gerir Landsnet ráð fyrir nýbyggingu u.þ.b. 152 km af loftlínum á Suðvesturlandi, og 54 km af háspennustrengjum í jörðu. Hluti af þeirri framkvæmd er áætluð lagning nýrrar háspennulínu frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar, sem liggur m.a. um land Voga á Vatnsleysuströnd. Pattstaða kom hins vegar upp í lok síðasta árs þegar bæjarstjórn Voga samþykkti að heimila Landsneti aðeins lagningu jarðstrengja um land sveitarfélagsins. Meirihluti bæjarstjórnar klofnaði í kjölfarið. Landsnet hefur sagt að jarðstrengur verði ekki lagður þar og íbúar verði því að búa við gömlu raflínurnar sé þetta niðurstaðan.

Á Norðurlandi komu einnig upp deilur, árið 2008, þegar Skagfirðingum voru kynntar fyrirætlanir um lagningu háspennulínu þvert yfir héraðið. Framkvæmdin er hluti af fyrirhugaðri Blöndulínu, 110 km langrar loftlínu frá Blöndustöð til Akureyrar. Skagfirðingar sögðust upplifa línuna sem mikið lýti á héraðinu og landeigendur óttuðust áhrifin sem framkvæmdirnar hefðu.  

Bæjaryfirvöld á Akureyri voru heldur ekki par hrifin af hugmyndum Landsnets sem settar voru fram 2008 um að Blöndulína 3 skyldi lögð um Eyrarlandháls, ofan Kjarnaskógar, á fyrirhuguðu útivistarsvæði. Akureyrarbær hafði þá sett sér það markmið að tvær eldri línur sem þegar liggja gegnum útivistarsvæði bæjarins verði í framtíðinni lagðar í jörðu. Lagning Blöndulínu 3 er enn í undirbúningi í samstarfi við sveitarfélögin.

400-500 milljarða aukakostnaður

Í dag tilkynnti svo hreppsnefnd Kjósarhrepps að hún hefði hafnað hugmyndum Landsnets um að leggja nýja raforkulínu um hreppinn. Sem fyrr er það loftlína sem fyrirhugað er að byggja, 440 kv lína frá Geithálsi að Grundartanga. Hreppsnefndin segir fyrirhugaða línu vera fyrirferðarmeiri og hafa meira helgunarsvæði en línan sem fyrir er. Raunar gengur hreppsnefndin enn lengra og hafnar alfarið frekari iðnaðaruppbyggingu í Hvalfirði, sem nýju raforkulínunni var ætlað að þjóna.

Fram kemur í samanburði Landsnets á loftlínum og jarðstrengjum að helsta ástæða þess að þeir síðarnefndu séu ekki eins útbreiddir sé mikill munur á stofnkostnaði, en einnig hafi tæknilegar takmarkanir jarðstrengja, sem og vandkvæði við rekstur þeirra á háum spennum, áhrif. Þórir Guðmundsson, forstjóri Landsnets, sagði í viðtali við Morgunblaðið í október 2011 að ef leggja ætti allar nýjar háspennulínur í jörð myndi það þýða 400-500 milljarða króna aukakostnað.

Hvort tveggja loftlínur og jarðstrengir hafa áhrif á umhverfið. Sjónræn áhrif loftlína eru hins vegar mun meiri en jarðstrengja.

Það er ekki áhættulaust að vera línuviðgerðarmaður.
Það er ekki áhættulaust að vera línuviðgerðarmaður. Rax / Ragnar Axelsson
Háspennumöstur í Hvalfirði.
Háspennumöstur í Hvalfirði. Mbl.is/Árni Sæberg
Rafmagnslínur á leið til Þingvalla
Rafmagnslínur á leið til Þingvalla Þorvaldur Örn Kristmundsson
Háspennumöstur
Háspennumöstur Mbl.is/Einar Falur Ingólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka