Um 450 farþegar Icelandair í fjórum flugvélum sitja fastir á Keflavíkurfluvelli sökum veðurs. Þeir sem lengst hafa beðið hafa beðið í yfir klukkustund úti í vél.
Ekki er hægt að koma vélunum að landgöngubrúnum sökum vinds. Þá verður seinkun á þremur ferðum félagsins til Norður-Ameríku; Boston, New York og Orlando. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að því sé spáð að veður gangi niður innan tíðar. Hann segir þetta nokkuð óvenjulegar aðstæður sem nú hafi skapast á flugvellinum.
Vélarnar fjórar sem farþegarnir sitja í eru að koma frá Evrópu. Þær bíða nú verstu hviðurnar af sér á flugvellinum, í nánd við gömlu flugstöðina.
Samkvæmt reglum flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er vélum ekki hleypt að landgöngum sé vindhraði meiri en 25 m/s.
Vélarnar verða teknar að landgöngubrúnum um leið og færi gefst, en sumir landgangarnir eru í meira skjóli en aðrir og þar því hægt að taka vélar upp að þegar mestu hviðurnar ganga niður.