Málið sagt snúast um annað en æru Jóns Ásgeirs

mbl.is/Hjörtur

Ekki verður bet­ur séð en að til­gang­ur Jóns Ásgeirs Jó­hann­es­son­ar, fyrr­ver­andi aðal­eig­anda Baugs Group ehf., með því að höfða meiðyrðamál gegn Birni Bjarna­syni, fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra, sé að koma höggi á Björn. Þetta kom fram í mál­flutn­ingi Jóns Magnús­son­ar hæsta­rétt­ar­lög­manns við aðalmeðferð máls­ins sem fram fór í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morg­un. Sagði hann ljóst af gögn­um máls­ins að málið sner­ist ekki á nokk­urn hátt um æru Jóns Ásgeirs. Um slíka smá­muni væri að ræða.

Málið snýst einkum um þau um­mæli Björns í bók sinni „Rosa­baug­ur yfir Íslandi“ sem gef­in var út síðastliðið sum­ar, þar sem fjallað er um Baugs­málið svo­nefnt, að Jón Ásgeir hafi fengið dóm fyr­ir fjár­drátt í tengsl­um við það mál þegar hið rétta var að hann var sak­felld­ur fyr­ir meiri­hátt­ar bók­halds­brot. Í kjöl­farið skrifaði lögmaður Jóns Ásgeirs Birni bréf og fór fram á það að um­mæl­in yrðu leiðrétt, Jón Ásgeir beðinn af­sök­un­ar, það aug­lýst og óseld ein­tök af bók­inni að auki tek­in úr sölu.

Jón Magnús­son sagði að Björn hefði orðið við þessu eins og hann hefði haft tök á. Af­sök­un­ar­beiðni hefði verið birt og rit­vill­ur sem gerðar hefðu verið at­huga­semd­ir við lag­færðar í næstu prent­un bók­ar­inn­ar skömmu síðar. Það hefði hins veg­ar ekki verið í hans valdi að taka óseld­ar bæk­ur úr sölu held­ur út­gef­and­ans. Björn hefði bent lög­manni Jóns Ásgeirs á að hann gæti beint þeirri kröfu sinni til hans. Að vísu skild­ist hon­um að bók­in hefði þá þegar verið uppseld. Jón sagði að um­bjóðandi sinn hefði ekki fengið nein viðbrögð við þessu af hálfu lög­manns Jóns Ásgeirs og því í góðri trú talið málið úr sög­unni.

Viðbrögð Björns ófull­nægj­andi

Gest­ur Jóns­son, lögmaður Jóns Ásgeirs, lagði áherslu á að um­mæli Björns hefðu verið röng og meiðandi fyr­ir um­bjóðanda sinn. Hann sagði að viðbrögð Björns hefðu verið ófull­nægj­andi. Af­sök­un­ar­beiðni hans hefði verið í skötu­líki og aug­lýs­ing sem hann hefði birt í Morg­un­blaðinu þar sem hún kom fram verið lít­il. Þá hefði hann ekki gert neina til­raun til þess að beita sér fyr­ir því að óseld ein­tök bók­ar­inn­ar væru tek­in úr sölu. Hann sagði það enn­frem­ur rangt að Björn hefði ekki fengið viðbrögð frá Jóni Ásgeiri við til­raun­um sín­um til leiðrétt­ing­ar.

Krafa um­bjóðanda hans væri að um­mæli Björns yrðu dæmd dauð og ómerk og að hon­um yrði gerð refs­ing vegna brota gegn ákvæðum al­mennra hegn­ing­ar­laga um ærumeiðing­ar. Þá yrði Birni gert að greiða Jóni Ásgeiri miska­bæt­ur upp á eina millj­ón króna vegna máls­ins og að birta dóm­inn op­in­ber­lega og greiða kostnað vegna þess. Jón Magnús­son gerði á móti kröfu um að um­bjóðandi hans yrði sýknaður vegna máls­ins.

Gest­ur hafnaði því al­farið að annað vekti fyr­ir Jóni Ásgeiri en að ná fram rétti sín­um í mál­inu og taldi vanga­velt­ur um annað ekki sæm­andi í dóms­máli sem þessu. Hann lagði áherslu á að refsi­verð hátt­semi hyrfi ekki við það eitt að sá sem gerðist sek­ur um hana iðraðist gerða sinna. Horfa yrði enn­frem­ur til þess í mál­inu að hinn stefndi væri lög­fræðing­ur að mennt og hefði verið dóms­málaráðherra mest­an hluta þess tíma sem Baugs­málið hefði verið í gangi. Gera yrði vegna þess sér­staka kröfu til hans um hlut­lægni í mál­inu.

Sagði um sér­stætt meiðyrðamál að ræða

Jón sagði að um mjög sér­stakt meiðyrðamál væri að ræða og senni­lega al­veg ein­stakt þar sem kraf­ist væri refs­ing­ar vegna um­mæla sem þegar hefði verið beðist af­sök­un­ar á. Hann hefði komið að mörg­um slík­um mál­um en aldrei vitað annað eins. Velti hann meðal ann­ars upp þeirri spurn­ingu hvernig hægt væri að dæma um­mæli dauð og ómerk sem þegar hefði verið beðist af­sök­un­ar á og viður­kennt að væru röng.

Þá sagði Jón málið snú­ast um tján­ing­ar­frelsið. Svo virt­ist sem mark­mið Jóns Ásgeirs væri að senda ákveðin skila­boð með mál­inu til annarra á þá leið að hann veigraði sér ekki við að höfða meiðyrðamál gegn fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra vegna til­tölu­lega lít­il­vægra atriða. Þessu hafnaði Gest­ur al­farið fyr­ir hönd um­bjóðanda síns.

Hvorki Björn Bjarna­son né Jón Ásgeir Jó­hann­es­son voru viðstadd­ir aðalmeðferð máls­ins í morg­un.

Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra.
Björn Bjarna­son, fyrr­um dóms­málaráðherra. mbl.is/​Krist­inn Ingvars­son
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Baugs Group ehf.
Jón Ásgeir Jó­hann­es­son, fyrr­um aðal­eig­andi Baugs Group ehf. mbl.is/Ó​mar
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert