Úrskurðaður í gæsluvarðhald

Atburðurinn átti sér stað í þessu húsi við Skúlaskeið í …
Atburðurinn átti sér stað í þessu húsi við Skúlaskeið í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar

Karl á þrítugsaldri var í dag í héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í gæsluvarðhald til 21. febrúar að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Maðurinn er grunaður um manndráp en kona á fertugsaldri fannst látin á heimili mannsins í Hafnarfirði í gærmorgun. Á konunni voru áverkar eftir eggvopn og er maðurinn grunaður um að hafa valdið þeim. Það er í samræmi við framburð mannsins þegar hann kom á lögreglustöð og greindi frá málinu. Aðrir liggja ekki undir grun. Lífsýni verða send til frekari rannsóknar. Maðurinn mun undirgangast geðrannsókn.

Eins og fram hefur komið gaf maðurinn sig fram á lögreglustöð í gær og greindi frá atviki sem hafði átt sér stað á heimili hans. Framburður hans var um margt óljós en strax var haldið heim til mannsins og þar fannst kona á fertugsaldri. Hún var látin þegar að var komið en á henni voru sjáanlegir áverkar. Konan var gestkomandi á heimili mannsins en þau höfðu þekkst um hríð. Lagt var hald á eggvopn í þágu rannsóknarinnar. Maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert