Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Frjálslynda flokknum í vil í dómsmáli sem reis vegna ágreinings um hver ætti að fá framlag Reykjavíkurborgar vegna framboðs til borgarstjórnar. Borginni er gert að greiða 6,7 milljónir, auk vaxta, til flokksins.
Reykjavíkurborg greiðir lögbundið fjárframlagi til stjórnmálasamtaka samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Ólafur F. Magnússon sótti um framlagið í maí 2006 og í umsókninni kemur fram að framboðslistinn sé borinn fram af Frjálslynda flokknum. Þá sagði þar að listinn beri heitið F-listi frjálslyndra og óháðra og hafi listabókstafinn F.
Reykjavíkurborg greiddi Frjálslynda flokknum 2,8 milljónir í febrúar 2007. Ágreiningur kom síðan upp milli Frjálslynda flokksins og Ólafs sem leiddi til þess að hann sagði skilið við flokkinn. Í júní 2008 greiddi borgin tæplega 3,4 milljónir inn á reikning Borgarmálafélags F-listans sem Ólafur hafði umráð yfir.
Í dómnum segir er vísað til laganna og segir að með orðinu stjórnmálasamtökum sé átt við flokka eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna. „Einstakir framboðslistar eða frambjóðendur, sem stjórnmálasamtök hafa boðið fram við sveitarstjórnarkosningar, eiga ekki tilkall til þessa fjárframlags.“
Í dómnum er bent á að þegar seinni greiðslan var greidd, sem um er deilt í þessu máli, hafi Ólafur gegnt stöðu borgarstjóra. „Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu mátti honum vera ljóst að stefnandi, sem var rétthafi fjárframlagsins, [Frjálslyndi flokkurinn] æskti þess að framlagið yrði greitt inn á tiltekinn reikning í eigu stefnanda. Í ljósi þeirrar stöðu sem réttargæslustefndi Ólafur gegndi hjá stefndu telur dómurinn hana ekki geta borið því við að hafa verið grandlaus um að hann skorti heimild rétthafa greiðslunnar til að ákveða hvert henni yrði ráðstafað.“