Komin eru drög að málefnasamningi og samstarfsyfirlýsingu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Y-lista í Kópavogi. Efni samninganna verður kynnt flokksmönnum á næstu dögum.
„Nú eru menn bara að lesa pappíra inni hjá sér, það eru komin drög að málefnasamningi og samstarfsyfirlýsingu,“ segir Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknarmanna í Kópavogi. „Ég kynni þetta í fulltrúaráði flokksins á morgun, fimmtudaginn.“
Spurður um efni samninganna og yfirlýsingarinnar segist Ómar ekki tjá sig um það að svo komnu máli. „Ég verð að kynna þetta fyrst fyrir mínu fólki.“
Ef þetta verður samþykkt af fulltrúaráðum flokkanna þriggja, munu Kópavogsbúar þá fá nýjan meirihluta í bæjarstjórn fyrir helgi? „Ef þetta gengur upp, þá verður tekin ákvörðun um hvort kallaður verður saman bæjarstjórnarfundur. En annars er næsti fundur á þriðjudaginn,“ segir Ómar.