„Þetta var mjög hrottafengin árás,“ segir talsmaður lögreglunnar á Húsavík, en 71 árs gamall karlmaður var barinn og skorinn á Þórshöfn seint í gær. Árásarmaðurinn, karlmaður á þrítugsaldri, var handtekinn á staðnum og segir lögregla að um hafi verið að ræða uppgjör áratugagamals máls.
„Hann var barinn mikið og töluvert skorinn,“ segir lögregla. „Aðkoman var afar ljót og maðurinn er með töluverða áverka, bæði útvortis og innvortis.“ Maðurinn er nú á sjúkrahúsinu á Akureyri.
Að sögn lögreglu var árásarmaðurinn á staðnum þegar lögreglu bar að garði, en tilkynnt var um árásina skömmu eftir miðnætti. Hann reyndist vera undir áhrifum áfengis, hann var samstarfsfús og telst málið að mestu upplýst.
„Þetta var uppgjör á áratuga gömlu máli, sem kom ekki til kasta lögreglu á sínum tíma,“ segir talsmaður lögreglunnar á Húsavík og vildi ekki tilgreina hvers eðlis það mál er.
Árásarmaðurinn er nú í haldi lögreglunnar á Húsavík.
Frétt mbl.is: Ráðist á mann á áttræðisaldri