Óttast uppsögn

Snorri Óskarsson, grunnskólakennari við Brekkuskóla á Akureyri, telur að fundur hans á mánudaginn með skólayfirvöldum leiði til uppsagnar hans. Töluverð óánægja hefur verið vegna skrifa Snorra um samkynhneigða á bloggsíðu hans þar sem hann m.a. skrifar um samkynhneigð sem synd.

„Samkvæmt fundarboðinu er þetta fundur vegna yfirstandandi áminningar sem er þá undanfari uppsagnar. Þar með er það orðið saknæmt athæfi að halda úti bloggfærslum. Ég veit þó ekki hversu langt skólinn mun ganga og það verður einfaldlega að koma í ljós.“

Að sögn Snorra snýst málið af hálfu skólayfirvalda um ímynd skólans og bæjarfélagsins en sjálfur vísar hann slíkum vangaveltum á bug.

„Mér finnst þetta ekki eðlilegt og mikil mistök því að ég hefði ekki verið að starfa við kennslu í 30 ár ef ég vissi ekki hvar mörkin lægju. Ég hef áður verið gagnrýndur og lent í svona málum og þá hafa menn ekki verið að fetta fingur út í það innan skólans svo þetta er alveg nýr flötur á málinu.“

Margir hafa stutt Snorra í þessu máli og að hans sögn hafa samtökin Vantrú sent honum skilaboð þar sem þau lýsa yfir stuðningi við málfrelsi og trúfrelsi. Snorri segist þó skilja þá gagnrýni sem hann fær á sig vegna málsins en ítrekar að það sé engum til gagns að mála fólk sem okkur er ekki að skapi eða erum ósammála sem asna, fordómafullt eða þröngsýnt.

„Ég get skilið að fólk er mér ekki sammála en að mála mig sem asna og fífl fyrir að vera  mér ekki sammála er ekki sæmandi nokkrum manni.“

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka