Snorri sendur í leyfi

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Skólayfirvöld á Akureyri hafa ákveðið að leysa Snorra Óskarsson, grunnskólakennara við Brekkuskóla á Akureyri, frá störfum út þetta skólaár. Hann á kost á að hefja kennslu aftur í haust ef hann hættir að tjá sig á netinu um samkynhneigð. Snorri segist ekki ætla að hætta að blogga.

Snorri átti fund með skólayfirvöldum á Akureyri í dag. Á fundinum var honum veitt lausn frá störfum, en hann verður á fullum launum út skólaárið. Snorri segir að þetta sé gert til að lægja öldur, en Snorri hefur verið gagnrýndur fyrir skoðanir sínar á samkynhneigð, sem hann hefur tjáð í bloggfærslum.

„Ef ég blogga ekki mun ég ganga inn í næsta skólaár í friði og ró. Skilyrði er sem sé að ég bloggi ekki um svona efni. Ég tók það fram á fundinum í dag að ég ætla mér að halda áfram að blogga. Ég vil fá að njóta tjáningarfrelsis. Mér finnst ekki rétt af mér að selja tjáningarfrelsið fyrir kennaralaun.“

Snorri sagðist ekki vera sáttur við þessa niðurstöðu. Hann sagði það sitt mat að aldrei hefði verið ástæða fyrir skólann að grípa til áminningar.

Snorri sagðist ætla að leita ráða hjá Kennarasambandinu og leita upplýsinga hjá lögfróðum mönnum um möguleg næstu skref.

Snorri hefur kennt við Brekkuskóla í 10 ár.

Yfirlýsing frá Akureyrarbæ

Akureyrarbær sendi frá sér fréttatilkynningu í dag um þetta mál Þar segir:

„Síðustu daga hefur verið hávær umræða í fjölmiðlum um ummæli grunnskólakennara á Akureyri um samkynhneigð sem birtust á bloggi hans.

Akureyrarbæ hefur verið legið á hálsi að bregðast ekki við ummælunum. Það skal upplýst að árið 2010 brugðust skólayfirvöld við ummælum umrædds kennara um samkynhneigð þar sem honum var gert að láta af slíkum meiðandi ummælum. Því var brugðist umsvifalaust og hart við þeim ummælum sem nú eru til umræðu. Var málið þegar í stað sett í það lögformlega ferli sem starfsmannaréttur og stjórnsýslulög gera ráð fyrir hjá hinu opinbera.

Starfsmannamál eru trúnaðarmál og því getur Akureyrarbær ekki gert opinbert hver niðurstaða málsins er en þess skal getið að umræddur starfsmaður hefur verið sendur í tímabundið leyfi frá störfum. Akureyrarbær getur ekki og mun ekki tjá sig frekar í fjölmiðlum um mál þessa einstaka starfsmanns sem hér um ræðir.“

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka