Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra telur í svari sínu við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar, þingmanns Framsóknarflokks, að varasamt sé að skera enn frekar niður útgjöld til vegamála og að lengra verði vart gengið nema gengið verði á umferðaröryggi. En ráðherrann var spurður hvernig niðurskurður síðustu ára hefur komið niður á viðhaldi vega. Jafnframt var innanríkisráðherra spurður út í þróun útgjalda í viðhaldsþjónustu Vegagerðarinnar síðastliðin 10 ár.
Í svari ráðherra kemur m.a. fram að þjóðvegakerfi landsins er um 13.000 km og að fjárveitingar til viðhalds og þjónustu eru ætlaðar til að reka allt vegakerfið og viðhalda þeim verðmætum sem í því eru bundin.
Kostnaður vegna þessara verkefna hefur að undanförnu numið ríflega 10 milljörðum króna en fjárveitingar hafa farið minnkandi frá árinu 2010. Í ár er gert ráð fyrir um 7,6 milljörðum króna til verkefnanna.
Í svari ráðherra er varað við slæmri þróun í þessum málum og bent á minnkandi umferðaröryggi. „Með minnkandi fjárveitingum hefur verið dregið úr endurbótum og styrkingum á vegakerfinu og reynt að nota ódýrari aðgerðir við viðhald slitlaga, með því að setja bætur og fylla í hjólför á verstu stöðunum í stað þess að leggja nýjar yfirlagnir. Á fáum árum verður vegakerfið með þessu móti ósléttara og ójafnara, sem dregur úr umferðaröryggi,“ segir í svari innanríkisráðherra en að auki er bent á að þjónusta við þessa vegi eigi eftir að verða kostnaðarsamari en ella.
Þá kemur einnig fram að stór hluti vegakerfisins sé gamall og því byggður fyrir léttari umferð. Er því ljóst að vegakerfinu mun fara mjög hratt aftur verði endurbótum ekki sinnt.
Lengra verður vart gengið
Á árinu 2009 átti sér stað skerðing í vetrarþjónustu og var snjómokstursdögum fækkað ásamt styttri daglegum þjónustutíma. „Fjárheimild á árinu 2012 er áætluð 1.580 millj. kr. og eru það einungis um 70% af áætluðum kostnaði eftir þá skerðingu. Á árinu 2011 er kostnaður við vetrarþjónustu um 2.200 millj. kr.,“ segir í svari ráðherra en það mun vera nærri reiknaðri lágmarksþörf eða því sem nemur um 40% yfir þeirri fjárheimild sem áætluð er á árinu 2012.
Sé einungis horft til heildarkostnaðar þjónustunnar má af því sjá að tekist hefur að lækka kostnað við þennan lið um 35%. Var það hægt eftir að gripið hafði verið til allra leiða í niðurskurði, hagræðingu og sparnaði án þess að ganga of nærri umferðaröryggi. „Samt sem áður hefur ekki tekist að ná kostnaði niður í þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til þessara verkefna, en á árinu 2011 námu fjárveitingar um 80% af kostnaði ársins.“
Er því varað við frekari niðurskurði í ljósi þess að verulega sé farið að ganga á ástand vegakerfisins. „Þar sem fastur kostnaður er um 40% af heildarkostnaði er nokkuð ljóst að lengra verður vart gengið nema gengið verði alvarlega á þjónustustig og umferðaröryggi.“
Fá úrræði til frekari sparnaðar
Þá segir í svarinu að vart sé hægt að skera vegheflun frekar niður, þar sem hún sé nú í lágmarki. Hugsanlegt er að skera niður í rykbindingu en það kæmi aftur á móti niður á endingu malarslitlaga. Þá mætti draga úr veglýsingu með því að skerða enn frekar lýsingartíma eða jafnvel slökkva alfarið á lýsingu. Að sama skapi væri hægt að minnka viðhald vegmerkinga og vegstika en það mun verulega draga úr öryggi vegfarenda.
„Undir núverandi kringumstæðum má ljóst vera að hverri tillögu um aukna þjónustu verður að fylgja tillaga um sambærilegan niðurskurð.“