Mál Snorra í farvegi

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson mbl.is/Jóhannes

Mál Snorra Óskarssonar, grunnskólakennara við Brekkuskóla á Akureyri, er „í farvegi eins og öll önnur mál sem til okkar koma,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara. Skólayfirvöld á Akureyri hafa ákveðið að leysa Snorra frá störfum út skólaárið en hann á kost á að hefja aftur kennslu í haust gegn því að hann hætti að tjá sig um samkynhneigð á netinu.

„Snorri á rétt á því, eins og allir aðrir félagsmenn Kennarasambands Íslands, sama hverjir þeir eru eða í hvaða máli þeir lenda, að leita til okkar til að kanna hvort réttindi hans gagnvart ráðningarmálum séu virt. Eitt af hlutverkum sambandsins er að standa vörð um réttindi kennara og ef talið væri að verið sé að brjóta á þeim þá verður það skoðað. Það hefur komið fram hjá Snorra að hann hefur leitað til okkar varðandi sín réttindamál í tengslum við ráðningar og við erum að vinna í því,“ segir Ólafur.

Í siðareglum Kennarasambands Íslands segir m.a. að kennara beri að efla með nemendum virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhverfi og menningu. Hann eigi að hafa jafnrétti að leiðarljósi, vinna gegn fordómum og sýna öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Að auki á kennari að gæta heiðurs og hagsmuna stéttar sinnar. Ólafur segir þetta viðmiðunarreglur, enginn úrskurðaraðili sé á vegum sambandsins sem segi til um hvort menn hafi farið á svig við reglurnar eða ekki.

„Ég get ekki sagt hvort Snorri hafi brotið reglurnar eða ekki því þá er ég kominn í dómarasætið sem Kennarasambandið og þing þess hafa ákveðið að vera ekki með. Þetta eru viðmiðunarreglur og það er þannig að hver og einn getur átt það við sig hvort hann hafi farið á svig við þær eða ekki. Menn geta haft skoðanir á því og ég er ekki í nokkrum vafa um það að það fólk sem finnst hann hafa gert það en einnig fólk sem finnst hann ekki hafa gert það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka