Ef ég lendi í helvíti rotna ég þar glaður

Hjálmar Forni Sveinbjörnsson
Hjálmar Forni Sveinbjörnsson mbl.is

Hjálmar Forni Sveinbjörnsson, ungur samkynhneigður maður, segir ummæli Snorra Óskarssonar safnaðarhirðis við Hvítasunnukirkjuna á Akureyri, og grunnskólakennara þar í bæ, engum til framdráttar. „Hann hefur alveg rétt á sínum skoðunum en skoðun hans brýtur hinsvegar á rétti okkar sem elskum einstakling af sama kyni.“

Hjálmar segir það mjög óþægilegt fyrir samkynhneigðan einstakling að sitja í tíma hjá kennara sem hefur þessar skoðanir.

Hjálmar gagnrýnir einnig ummæli þingmannsins Árna Johnsen um að ákvörðun um að senda Snorra í launað leyfi hafi verið af pólitískum toga. „Hann áttar sig ekkert á málinu. Hann talar um valdníðslu og ofbeldi sem á við engin rök að styðjast. Þetta mál á sér engar pólitískar rætur. Jafnframt talar Snorri um það í útvarpinu að hann sé hlynntur því að kennt verði í grunnskólum að samkynhneigð sé synd og ég sé ekki hvernig Árni ætlar að verja það,” segir Hjálmar.

Kennarar eiga að vera hlutlausir

Hjálmar segir að fólk hafi stundum sagt við sig að hann hafi enn tíma til að frelsast. „Í Biblíunni fyrirfinnst kvenfyrirlitning sem við tökum ekki mark á í dag og af hverju ættum við eitthvað frekar að taka mark á fordómum Biblíunnar gagnvart samkynhneigðum? Mín trú er að ef ég er góður maður að þá verður allt í lagi. Ef ég lendi í helvíti þá rotna ég þar bara sáttur,” segir Hjálmar.

Hjálmar segist fagna þeirri ákvörðun að Snorri hafi verið sendur í sex mánaða leyfi frá kennarastörfum. „Kennarar eiga að vera hlutlausir þegar kemur að umræðum um stjórnmál og einnig trúmál samkvæmt stefnu Kennarasambandsins. Það er alveg á hreinu að Snorri fer ekki eftir þeirri stefnu,” segir Hjálmar.

Hann segir að skrif Snorra sýni það að hann sé vanhæfur til þess að kenna í grunnskóla. Ennfremur spyr Hjálmar hvort það sé í lagi að ofstækistrúarmenn fái að kenna ungu fólki  sem enn er að þroskast og mótast sem einstaklingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka