Drög að reglum um samskipti leik- og grunnskóla við trú- og lífsskoðunarfélög, sambærileg við þær sem samþykktar voru í Reykjavík í fyrra, verða að líkindum lögð fyrir á fundi fræðsluráðs Hafnarfjarðar á mánudag.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður fræðsluráðs bæjarins, segir að reglunar muni byggjast á grunni reglna Reykjavíkurborgar. Þá sé Hafnarfjarðarbær nýbúinn að samþykkja jafnréttisstefnu og drögin byggist einnig á henni. Hún feli í sér að bærinn aðhafist ekkert þannig að fólki sé mismunað.
Svíar gerðu athugasemd við að prestar ríkiskirkjunnar kynntu börn fyrir kristinni trú, oft án samþykkis foreldra, í nýrri skýrslu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Leggja þeir til að stjórnvöld tryggi að ekkert barn taki þátt í trúarathöfnum sem takmarki trúfrelsi þeirra eða frelsi foreldra til að tryggja að trúar- og siðferðisuppeldi barna þeirra samræmist þeirra eigin sannfæringu.
Að sögn Guðrúnar Ágústu tengist málið ekki áhyggjum Svía. Það hafi verið tekið upp í Hafnarfirði þegar reglurnar komu til umræðu í Reykjavík á sínum tíma. Þá hafi verið kallað eftir umræðu í skólasamfélaginu.
„Þetta er mál sem er nauðsynlegt að skoða. Við fáum þónokkuð af ábendingum frá foreldrum sem finnst óþægilegt að það sé ekki skýr umgjörð utan um aðkomu trú- og lífsskoðunarfélaga að skólastarfi,“ segir hún. kjartan@mbl.is