Ástandið um borð í Brúarfossi var tvísýnt meðan skipið rak vélarvana í nótt í vondu veðri vestan Garðskaga, að mati Hafsteins Hafsteinssonar skipstjóra. Brúarfoss er nú að koma til Vestmannaeyja.
Rætt var við Hafstein þegar Brúarfoss var að nálgast Vestmannaeyjar. Hann sagði að allir hafi haldið ró sinni um borð. Allir sem komust að við viðgerðina lögðu sig alla fram við að koma vélinni aftur í gang. Aðstæður til viðgerðar voru ekki ákjósanlegar þar sem skipið flatrak undan vestanveðrinu í sjö metra öldu og valt mikið.
Togarinn Höfrungur III AK var hjá Brúarfossi og hefði tekið skipið í tog ef vélin hefði ekki farið í gang. Þegar Brúarfoss var kominn það nálægt landi að akkeri náði botni var það látið falla og dró það úr reki skipsins.
Hafsteinn sagði að Brúarfoss hafi átt eftir um tvær sjómílur í sker utan við Sandgerði þegar vélin fór í gang og siglingin hófst að nýju.
Varðskipið Ægir fylgdi svo Brúarfossi suður fyrir Reykjanes og sigldi Brúarfoss einskipa til Vestmannaeyja.