Var ekki brotlegur í starfi

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. mbl.is

Krist­ín Ing­ólfs­dótt­ir, rektor Há­skóla Íslands, seg­ir að ekk­ert hafi komið fram í meðferð máls Bjarna Rand­vers Sig­ur­vins­son­ar stunda­kenn­ara við Guðfræði- og trú­ar­bragðafræðideild skól­ans sem bendi til að hann hafi gerst brot­leg­ur í starfi.

Krist­ín hef­ur skrifað bréf til starfs­fólks Há­skóla Íslands vegna þessa máls, en það hófst eft­ir að Van­trú kærðu kennslu­gögn Bjarna Rand­vers til siðanefnd­ar skól­ans. Málið hef­ur verið um­deilt inna og utan skól­ans. Eng­in efn­is­leg niðurstaða fékkst í málið af hálfu siðanefnd­ar.  Van­trú ákvað á síðasta ári að draga kær­una til baka.

Krist­ín sagðist með þessu bréfi einkum hafa vilja leggja áherslu á tvö atriði. „Ég legg áherslu á að há­skóla­starfið grund­vall­ast á aka­demísku frelsi, en því fylg­ir líka ábyrgð. Með aka­demísku frelsi felst að kenn­ar­ar og vís­inda­menn skól­ans velja sjálf­ir rann­sókn­ar­efni sín. Þeir ráða með hvaða hætti þeir kenna og tjá sig í kennslu­stof­unni.
Hins veg­ar leggi ég líka áherslu á að mál­frelsið geng­ur í báðar átt­ir og ef ein­hverju finnst á sig hallað eða hef­ur at­huga­semd­ir við það sem hér fer fram þá er mik­il­vægt að þeir komi sjón­ar­miðum sín­um á fram­færi og við sem hér störf­um þurf­um alltaf að vera reiðubú­in að taka við gagn­rýni og leiða hana til niður­stöðu.  Komi fram gagn­rýni sem á er­indi til siðanefnd­ar verða málsmeðferðarregl­ur að vera skýr­ar og gegn­sæj­ar.  Við höf­um í ljósi þessa máls end­ur­skoðað starfs­regl­ur siðanefnd­ar og aðra verk­ferla.

Í þessu máli fékkst ekki efn­is­leg niðurstaða. Það voru því marg­ar spurn­ing­ar í mál­inu sem átti eft­ir að svara og því vildi ég koma því á fram­færi að það er ekk­ert sem hef­ur komið fram í meðferð máls­ins sem bend­ir til að viðkom­andi stunda­kenn­ari hafi gerst brot­leg­ur í starfi,“ seg­ir Krist­ín.

Bréf há­skóla­rektors

Ágæta sam­starfs­fólk,

Í bréfi sem ég sendi öll­um starfs­mönn­um Há­skóla Íslands 7. des­em­ber sl. varðandi mál fé­lags­ins Van­trú­ar og Bjarna Rand­vers Sig­ur­vins­son­ar stunda­kenn­ara, lagði ég áherslu á fjög­ur meg­in­at­riði. Í fyrsta lagi að frum­skylda há­skóla væri að standa vörð um aka­demískt frelsi í kennslu og rann­sókn­um, og al­mennt um mál­frelsi starfs­manna sinna. Í öðru lagi vakti ég at­hygli á að siðanefnd Há­skóla Íslands verði að starfa sjálf­stætt og án af­skipta rektors, há­skólaráðs, há­skóla­sam­fé­lags­ins eða annarra sem hlut kunna að eiga að máli. Í þriðja lagi lýsti ég þeirri skoðun að málsmeðferðarregl­ur siðanefnd­ar á hverj­um tíma verði að vera skýr­ar og gegn­sæj­ar. Í því sam­hengi vakti ég at­hygli á að starfs­regl­ur siðanefnd­ar hefðu verið end­ur­skoðaðar í ljósi at­huga­semda óháðrar nefnd­ar sem há­skólaráð skipaði í góðri sátt við málsaðila til að fara yfir málið í heild sinni. Ráðið ákvað enn frem­ur að efna til málþings um aka­demískt frelsi í kennslu og rann­sókn­um sem haldið var 27. janú­ar sl. Í fjórða lagi hef ég bent á að þrátt fyr­ir að finna megi að málsmeðferð, líkt og óháða nefnd­in ger­ir, tel ég að siðanefnd og for­ystu­menn Guðfræði- og trú­ar­bragðafræðideild­ar hafi verið í góðri trú þegar þeir leituðu sátta í mál­inu (m.a. í sam­ræmi við ákvæði siðareglna þar um) þótt vissu­lega megi deila um hvenær, hvernig og hve lengi leita eigi sátta í slík­um mál­um.

Ég hef haft fram­an­greint mál til frek­ari skoðunar í því augnamiði að sjá hvernig megi ljúka því þannig að þau sár sem það hef­ur valdið megi gróa um heilt. Niðurstaða mín eft­ir þessa yf­ir­veg­un er tvíþætt:

Í fyrsta lagi vil ég ít­reka þá grund­vall­araf­stöðu að frum­skylda há­skóla er að standa vörð um aka­demískt frelsi starfs­manna sinna í kennslu og rann­sókn­um. Eng­in óvissa má ríkja um rétt há­skóla­kenn­ara til að tjá sig frjálst í kennslu­stof­unni sam­kvæmt eig­in sann­fær­ingu. Þessi rétt­ur fel­ur í sér að heim­ilt er að gagn­rýna ólík viðhorf, kenn­ing­ar og gild­is­mat ogtak­mark­ast hann aðeins af lög­um í sam­fé­lag­inu og viður­kennd­um siðaregl­um há­skóla­sam­fé­laga. Komi fram gagn­rýni á störf há­skóla­kenn­ara sem á er­indi til siðanefnd­ar verður málsmeðferð því að lúta skýr­um og gagn­sæj­um regl­um. Ég minni á að gagn­rýn­in kennsla og fræðimennska í lif­andi há­skólaum­hverfi get­ur vakið upp and­stæð sjón­ar­mið og hörð viðbrögð. Afar mik­il­vægt er að við há­skóla­fólk séum stöðugt reiðubú­in til gagn­rýn­inn­ar sam­ræðu um störf okk­ar og að há­skóla­kenn­ar­ar sýni ábyrgð og virði rétt annarra, inn­an há­skóla­sam­fé­lags­ins og utan, til að koma sjón­ar­miðum sín­um að. Jafn­framt ber þeim að hvetja nem­end­ur sína til að taka sjálf­stæða og gagn­rýna af­stöðu til kennslu­efn­is­ins.

Í öðru lagi tel ég rétt að bregðast við því að ekki fékkst efn­is­leg niðurstaða í málið sem er baga­legt í ljósi þess hvernig umræðan hef­ur þró­ast og hversu viðamik­il hún hef­ur orðið. Van­trú dró að end­ingu umkvört­un sína til baka. Lykt­ir máls hafa skilið eft­ir ýms­ar erfiðar spurn­ing­ar sem valda málsaðilum skilj­an­lega hug­ar­angri. Ég get að sjálf­sögðu ekki kveðið upp efn­is­leg­an úr­sk­urð í mál­inu. Hins veg­ar vil ég árétta að ekk­ert hef­ur komið fram í meðferð máls­ins sem bend­ir til þess að viðkom­andi stunda­kenn­ari hafi gerst brot­leg­ur í starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka