Niðurstaðan mikil vonbrigði

Karl Axelsson, verjandi Baldurs Guðlaugssonar, sem fyrr í dag var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Hæstarétti, segir niðurstöðuna mikil vonbrigði, ekki síst þar sem dómurinn klofnaði og skilað var séráliti. Næstu skref hafi ekki verið ákveðin, fyrst verði dómurinn skoðaður gaumgæfilega.

Eins og sagt var frá fyrr í dag komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að staðfesta bæri dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um tveggja ára fangelsi yfir Baldri vegna innherjasvika og brota í opinberu starfi. Einnig eru gerðar upptækar til ríkissjóðs 192 milljónir króna sem eru söluandvirði hlutabréfa Baldurs í Landsbankanum. 

Ólafur Börkur Þorvaldsson, einn hæstaréttardómara, skilaði séráliti þar sem hann segir að vísa beri málinu frá dómi. Hann tók einnig efnislega afstöðu til sakarefnisins og komst þá að þeirri niðurstöðu að sýkna bæri Baldur af ákæruatriðum.

Karl Axelsson, verjandi Baldurs, svaraði spurningum fjölmiðlamanna eftir að dómurinn var upp kveðinn. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari gaf hins vegar ekki kost á viðtölum og sagðist þurfa að skoða dóminn áður en hún tjáði sig um hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert