Karlmanni sem er ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa í tvígang skotið úr haglabyssu í átt að bifreið í Bryggjuhverfi er gert að sitja í gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans. Staðfesti Hæstiréttur í dag niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þar að lútandi. Líkt og fram kom á mbl.is í dag verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu á miðvikudag.
Með ákæru útgefinni 10. febrúar 2012 var maðurinn ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa í tvígang skotið úr haglabyssu í átt að bifreið, án þess þó að hæfa ökumann eða farþega hennar, meðal annars með þeim afleiðingum að afturrúða bifreiðarinnar brotnaði og miklar skemmdir urðu á henni. Brot mannsins varðar allt að sextán ára fangelsi.
Þá er honum einnig gefið að sök vopnalagabrot með því að hafa haft í vörslu sinni úðavopn.
Maðurinn hefur sætt í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 29. nóvember 2011, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en á grundvelli almannahagsmuna frá 22. desember sl. Hann er nú á reynslulausn vegna fyrri dóms fyrir ofbeldisbrot en reynslulausnin hafði verið veitt þann 21. desember 2010.