Lánað án trygginga og heimildar

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi …
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri. mbl.is/Brynjar Gauti

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, er meðal annars ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína sem forstjóri bankans, þegar hann fór út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með því að láta bankann veita eignalausu félagi, í eigu Al Thani sjeiks í Katar, á Tortola 50 milljóna Bandaríkjadala lán án þess að lánið væri tryggt og án samþykkis lánanefndar bankans. Var lánið veitt hinn 19. september 2008 og lánsfjárhæðin lögð inn á reikning Al Thanis hjá Kaupþingi í Lúxemborg, félaginu til frjálsrar ráðstöfunar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ákæru embættis sérstaks saksóknara á hendur þeim Hreiðari Má, Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, Ólafi Ólafssyni, eiganda Samskipa, og Magnúsi Guðmundssyni, bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg. Þeir voru allir látnir sæta gæsluvarðhaldi, fyrir utan Ólaf, fyrir tveimur árum í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara.

Lánið var á gjalddaga hinn 30. september 2008 en var þá framlengt til 14. október 2008 og síðan til 18. nóvember sama ár. Lánsfjárhæðin hefur síðan verið í vanskilum og verður að telja hana Kaupþingi banka að fullu glataða.

Lánuðu 12,9 milljarða án tryggingar

Hreiðar Már og Sigurður eru einnig ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað stöðu sína þegar þeir fóru út fyrir heimildir sínar til lánveitinga í september 2008 með því að láta í sameiningu bankann veita Gerland Assets, eignalausu félagi á Tortola, í eigu Ólafs Ólafssonar, sem átti 9,88% hlut í bankanum í gegnum félög sín, tæplega 12,9 milljarða króna lán í formi óundirritaðs peningamarkaðsláns, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefndar bankans (sem Sigurður stýrði) og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og hafa þannig valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Lánið var veitt 29. september 2008, nokkrum dögum fyrir fall Kaupþings, og var það lagt inn á reikning Gerland í Kaupþingi. Sama dag var það millifært á aðra reikninga og endaði á vörslureikning í eigu Q Iceland Finance í bankanum.

Fjárhæðinni var varið til kaupa á hlutafé í Kaupþingi. Lánsfjárhæðin hefur síðan verið í vanskilum og verður að telja hana að fullu glataða, samkvæmt ákærunni á hendur fjórmenningunum.

Fól í sér blekkingu og sýndarmennsku

Þeir Hreiðar Már og Sigurður eru einnig ákærðir fyrir markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi í september 2008 með því að láta ranglega líta svo út að þekktur fjárfestir frá Katar, sjeik Al Thani, hefði lagt fé til kaupa á 5,01% hlut í Kaupþingi þegar Q Iceland Holding keypti umræddan hlut í bankanum og leyna fullri fjármögnun bankans á hlutafjárkaupum og aðkomu meðákærða Ólafs að þeim.

„Var um að ræða viðskipti með stóran hlut í Kaupþingi banka hf. sem fólu í sér blekkingu og sýndarmennsku og voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í bankanum misvísandi til kynna þar sem dulin var full fjármögnun bankans sjálfs í viðskiptunum og að auki aðkoma stórs hluthafa bankans, meðákærða Ólafs, að þeim og einnig dulið að helmingur markaðsáhættu vegna hlutabréfanna hvíldi á bankanum sjálfum eftir viðskiptin,“ segir í ákærunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka